Fara í efni
Fréttir

Viltu tilnefna konu til viðurkenningar FKA?

Rakel Garðarsdóttir og viðurkenningarhafar ársins 2025, þær Arnhildur og Hrefna. Með þeim er Ingibjörg Kristjánsdóttir hjartalæknir sem veitti viðurkenningu Geirlaugar móður sinnar viðtöku og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar vegna Viðurkenningarhátíðar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) árið 2026. Félagið kallar eftir tilnefningum frá almenningi og atvinnulífinu og leggur áherslu á að fá tilnefningar alls staðar af landinu. Viðurkenningarhátíðin er haldin í ársbyrjun og var fyrsta viðurkenningin veitt árið 1999.

Í tilkynningu frá félaginu segir að FKA Viðurkenningarhátíðin sé haldin árlega við hátíðlega athöfn þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Veittar eru viðurkenningar í þremur flokkum:

  • FKA viðurkenning er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning og fyrirmynd frá síðustu árum til upphafs
  • FKA hvatningarviðurkenning er veitt konum í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði eða nýjungar í atvinnurekstri frá síðustu árum til upphafs
  • FKA þakkarviðurkenning er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu frá síðustu árum til upphafs

Árið 2025 hlaut Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir FKA viðurkenninguna, Arnhildur Pálmadóttir hlaut FKA hvatningarviðurkenninguna og Geirlaug Þorvaldsdóttir hlaut FKA þakkarviðurkenninguna. 

Hér er hægt að lesa meira um Viðurkenningarhátíð FKA og senda inn tilnefningar.