Fara í efni
Fréttir

Viltu taka þátt í að kjósa fugl ársins?

Mandarínandarsteggur á andapollinum sumarið 2016. Litskrúðugur og fallegur en ekki í kjöri að þessu …
Mandarínandarsteggur á andapollinum sumarið 2016. Litskrúðugur og fallegur en ekki í kjöri að þessu sinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kosning á fugli ársins er hafin á vegum Fuglaverndar. Þetta er í fyrsta skipti sem félagið stendur fyrir slíku kjöri og full ástæða til að hvetja fólk til þess að taka þátt. Kosningu lýkur næsta sunnudag og úrslit verða tilkynnt á sumardaginn fyrsta, 22. apríl.

Atkvæði eru tekin að streyma inn eins og farfuglar að vori, segir Fuglavernd, og strax sé ljóst að kosningin verði spennandi!

Valdir voru 20 fuglar sem keppa um titilinn. Búið er að skipa kosningastjóra fyrir þá flesta, en rjúpa, stari og svartþröstur „flögra þó enn í lausu lofti án sérstakra talsmanna,“ eins og það er orðað í tilkynningu. Þrjá vantar sem sagt kosningastjóra! „Það er fjölbreyttur og fagur hópur fólks úr öllum áttum og af öllum aldri sem hefur tekið að sér að stýra oddaflugi hinna fuglanna í keppninni. Margir hafa komið upp samfélagsmiðlasíðum fyrir fuglana sína sem Fuglavernd hvetur fólk eindregið til að fylgja.“

Kosningin stendur til kl. 18.00 næsta sunnudag, 18. apríl.

Upplýsingar um keppendur og kosningakerfið má sjá á vef Fuglaverndar, svo og hlekk á kosningaeyðublað. Þar er einnig að finna upplýsingar um kosningastjóra fuglanna og hlekki á samfélagsmiðlasíðurnar sem þeir nota.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu Fuglaverndar.

Smelltu hér til að sjá allar helstu upplýsingar um kjörið.

Smelltu hér til að kjósa fugl ársins.