Fara í efni
Fréttir

Viltu spyrja frambjóðendur?

Akureyringar velja sér bæjarfulltrúa til starfa næstu fjögur ár þegar kosið verður til sveitarstjórna hér á landi laugardaginn 14. maí næstkomandi.

Ljóst er að mikil endurnýjun verður í bæjarstjórn eftir kosningarnar í maí vegna þess hve margir núverandi bæjarfulltrúa hafa ákveðið að draga sig í hlé. Aðeins tveir oddvitar frá því fyrir fjórum árum eru aftur í efsta sæti, Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, og Hlynur Jóhannsson, Miðflokki, en fleiri sitjandi bæjarfulltrúar eru þó í framboði.

Gera má ráð fyrir að kjósendur hafi áhuga á að kynnast stefnumálum framboðanna og sjónarmiðum frambjóðenda.

  • Hverjar verða áherslurnar? Margt brennur á fólki; skipulagsmál hafa til dæmis verið mjög til umræðu á kjörtímabilinu, atvinnumál, rekstur öldrunarheimilanna, sem bærinn skilaði til ríkisins, uppbygging íþróttamannvirkja og þannig mætti lengja telja.

Akureyri.net vill gefa bæjarbúum tækifæri til að beina spurningum til frambjóðenda í aðdraganda kosninganna.

Fólk er hvatt til þess að nýta tækifærið næstu vikur. Sendið spurningar á netfangið skapti@akureyri.net, þeim verður komið áleiðis og svörin birt á Akureyri.net þegar þau berast.

Farið er fram á að spurningar verði málefnalegar. Spyrjendur þurfa að gefa Akureyri.net upp nafn og símanúmer svo hægt sé að sannreyna að allt sé með felldu. 

Framboðin eru þessi, í stafrófsröð – og nöfn fjögurra efstu á hverjum lista.

Flokkur fólksins

  1. Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir
  2. Málfríður Þórðardóttir, ljósmóðir
  3. Jón Hjaltason, sagnfræðingur
  4. Hannesína Scheving, bráðahjúkrunarfræðingur

Framsóknarflokkur

  1. Sunna Hlín Jóhannesdóttir, framhaldsskólakennari og varabæjarfulltrúi
  2. Gunnar Már Gunnarsson, verkefnisstjóri í brothættum byggðum
  3. Alfa Dröfn Jóhannsdóttir, forvarnarfulltrúi
  4. Sverre Andreas Jakobsson, þjónustustjóri fyrirtækjaviðskipta á NA-svæði hjá Arionbanka og aðstoðarþjálfari meistaraflokks KA í handbolta

Kattaframboð

  1. Snorri Ásmundsson listamaður fyrir köttinn Reykjavík
  2. Ásgeir Ólafsson Lie markþjálfi fyrir Pusegutt
  3. Ragnheiður Gunnarsdóttir kattakona fyrir Snúbba
  4. Jóhanna María Elena Matthíasdóttir ferðamálafræðingur fyrir Pjakk

L-listi

  1. Gunnar Líndal Sigurðsson, forstöðumaður
  2. Hulda Elma Eysteinsdóttir, ÍAK einkaþjálfari
  3. Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi
  4. Andri Teitsson, bæjarfulltrúi

Miðflokkur

  1. Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi
  2. Inga Dís Sigurðardóttir, kennari
  3. Finnur Aðalbjörnsson, framkvæmdastjóri
  4. Sigrún Elva Briem, heilbrigðisritari HSN

Píratar

  1. Hrafndís Bára Einarsdóttir, leikkona og viðburðastýra
  2. Karl Halldór Vinther Reynisson, hönnuður
  3. Erna Sigrún Hallgrímsdóttir, öryrki/liðveitandi/nemi
  4. Embla Björk Hróadóttir, rafeindavirki

Samfylking

  1. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi
  2. Sindri Kristjánsson, yfirlögfræðingur
  3. Elsa María Guðmundsdóttir, grunnskólakennari
  4. Ísak Már Jóhannesson, umhverfisfræðingur

Sjálfstæðisflokkur

  1. Heimir Örn Árnason, deildarstjóri
  2. Lára Halldóra Eiríksdóttir, grunnskólakennari
  3. Þórhallur Jónsson, bæjarfulltrúi og kaupmaður
  4. Hildur Brynjarsdóttir, þjónustufulltrúi

Vinstri hreyfingin – grænt framboð

  1. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varabæjarfulltrúi
  2. Ásrún Ýr Gestsdóttir, háskólanemi
  3. Sif Jóhannesar Ástudóttir, verkefnastjóri
  4. Hermann Arason, framkvæmdastjóri