Fara í efni
Fréttir

Viltu hafa áhrif á hvaða leiðir strætó ekur?

Viltu hafa áhrif á hvaða leiðir strætó ekur?

Frestur til að koma á framfæri almennum ábendingum um fyrstu tillögur að nýja leiðaneti strætisvagna á Akureyri rennur út í dag, miðvikudag.

Tillögurnar voru fyrst kynntar fyrir þremur vikum og hafa síðan verið auglýstar á ýmsum miðlum, auk þess sem kynningarefni var sett upp á Glerártorgi. Um er að ræða mikla breytingu - til dæmis er aðeins gert fyrir föstum ferðum í Innbæinn kvölds og síðdegis, en á öðrum tímum þarf að panta akstur þangað og þaðan. Þegar hugmyndirnar voru kynntar kom fram að þrátt fyrir þetta megi gera ráð fyrir að strætó verði oftar á ferðinni í Innbænum en hingað til.

Óskað hefur verið eftir hugmyndum og ábendingum frá íbúum, til dæmis varðandi hvaða leið strætó ekur og staðsetningu stoppistöðva.

Allar helstu upplýsingar um verkefnið eru á sérstöku vefsvæði á heimasíðu Akureyrarbæjar, og þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig er hægt að hafa áhrif. Bæði er hægt að senda inn ábendingu í gegnum gagnvirkt kort og í gegnum netfangið nyttleidanet@akureyri.is.

Mikill áhugi er á endurskoðun leiðakerfisins meðal bæjarbúa, að því er segir á heimasíðu bæjarins, og hafa fyrstu tillögur vakið athygli. Hátt í 100 ábendingar hafa borist og er viðbúið að enn fleiri bætist við í dag. Áhersla hefur verið lögð á að ná til sem flestra hópa og að allir sem vilja geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Sérstaklega hefur verið leitað til hverfisnefnda, félaga og skilgreindra hagsmunahópa og boðið upp á samtöl og óskað eftir umsögnum.

Verkefninu er hvergi nærri lokið, því nú taka sérfræðingar aftur við boltanum og endurskoða tillögurnar í ljósi þeirra ábendinga og upplýsinga sem hafa komið fram í samráðsferlinu.

HÉR má horfa á rafrænan kynningarfund sem fram fór 11. nóvember 

HÉR má sjá allar helstu upplýsingar um verkefnið