Fara í efni
Fréttir

Vill hlúa að fagfólki vegna samúðarþreytu

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að hlúa að andlegri heilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum. Þar ræðir t.d. um starfsfólk heilbrigðiskerfisins, lögreglu og slökkviliðs, og starfsmenn í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Ingibjörg lagði fram þingsályktunartillögu þessa efnis í gær. Það er fyrsta þingmál hennar.

Ingibjörg tjáði Akureyri.net að hugmyndin að tillögunni væri komin frá Katrínu Ösp Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri. „Hún er í mastersnámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðsvið, við Háskólann á Akureyri, og hefur lagt áherslu á þetta mál í námi sínu. Katrín Ösp nefndi þetta við mig í kosningabaráttunni, ég ákvað að taka málið upp og hafði samband við hana aftur,“ segir Ingibjörg.

„Nýlega hefur verið farið að tala um samúðarþreytu hjá starfstéttum sem vinna við að hjálpa öðrum. Samúðarþreyta er þreyta sem verður til hjá þessum starfsstéttum þegar þær gefa meira af orku til vinnu sinnar en þær fá til baka. Samúðarþreyta getur þróast út í langvarandi veikindi, jafnvel svo alvarlega að fólk hættir að vinna. Það er mikilvægt að hlúa vel að fagfólkinu okkar til að vinna gegn streituvöldum og samúðarþreytu, sem getur verið fylgifiskur umræddra starfa,“ segir Ingibjörg Isaksen.

Þingsályktunartillagan og greinargerð Ingibjargar

Ingibjörg skrifaði grein um samúðarþreytu sem birtist á Akureyri.net í gær. Smellið hér til að lesa greinina.