Fara í efni
Fréttir

Vill einhver reisa braggana annars staðar?

Lóð Festi á Oddeyri. Braggarnir tveir fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Fljótlega hefjast framkvæmdir við byggingu húss á lóð Festi á Oddeyri, þar sem verslun Krónunnar verður opnuð haustið 2022, eins og Akureyri.net greindi frá í gær.

Nýlega varð ljóst að hægt yrði að hefja framkvæmdir, eftir að byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar samþykkti niðurrif tveggja bragga og geymsluhúsnæðis á lóðinni. Í gögnum byggingafulltrúa um málið kemur fram að Minjastofnun hafi hvatt til þess að braggarnir verði teknir niður og reistir á öðrum stað en sögu svæðisins verði haldið á lofti með einhverjum hætti á lóðinni.

Annað veifið hefur verið í umræðunni að varðveita þurfi bragga í sveitarfélaginu til að halda í söguna; margar slíkar byggingar þjónuðu merkilegu hlutverki á árum áður. Braggarnir tveir sem hér um ræðir voru byggðir af breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni.

Lóðin og húsin eru í eigu fasteignafélags Festi, sem sér um niðurrifið. Akureyri.net spurði Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festi, hvort til greina kæmi að láta taka braggana niður og reisa annars staðar, eða leyfa öðrum að reisa þá annars staðar ef einhver hefði áhuga á því.

Svar Eggerts Þórs var skýrt: „Við erum alveg til í að leyfa áhugasömum aðilum að taka þessa bragga og reisa þá á nýjum stað.“

Fróðlegt verður að sjá hvort einhver sýnir bröggunum áhuga.

Breski herinn var með talsverð umsvif í Eyjafirði á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Árið 1941 hófu herinn byggingu Delta Camp á Gleráreyrum, braggarnir urðu að minnsta kosti sex og tveir standa enn, þeir sem nú hefur verið heimilað að rífa. Þeir voru lengi hluti húsnæðis byggingavörudeildar KEA.

Smelltu hér til að lesa um nýja verslun Krónunnar á lóðinni