Fara í efni
Fréttir

Viljum auka lífsgæði nýrnasjúklinga

Jóhanna María Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsso…
Jóhanna María Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jóhanna María Oddsdóttir hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk), lýkur í vor sérnámi í hjúkrun fólks með nýrnasjúkdóma. Í tilefni alþjóðlega nýrnadagsins sem var á fimmtudaginn, 10. mars, ræddi Akureyri.net við Jóhönnu og Hallgrím Skaptason, sem farið hefur í blóðskilun vegna nýrnasjúkdóms, þrisvar í viku í sex og hálft ár. Hér er viðtalið við Hallgrím.

„Ég hef starfað á gjörgæslunni í 14 ár. Þegar skilunardeildin var opnuð innan hennar fyrir tæpum sjö árum vaknaði mikill áhugi hjá mér á að skoða hvað væri hægt að gera til þess að sinna þessum sjúklingahópi sem best,“ segir Jóhanna. Hún stundar námið í Osló, í blöndu af fjar- og staðarnámi.

Lífæð fólksins

Jóhanna segir nýrnabilun alvarlegri og án efa mun algengari en fólk heldur.

„Ég held að fólk geri sér almennt heldur ekki grein fyrir því að þeir sem þurfa á blóðskilunarmeðferð að halda þurfa hana þrisvar í viku, um það bil fjóra klukkutíma í senn, ekki bara stundum heldur alltaf, þar til þeir fá gjafanýra, ákveða að hætta meðferð eða meðferðin gagnast þeim ekki lengur. Skilunarmeðferð er lífæð þessara einstaklinga. Þess vegna er svo mikilvægt að færa þjónustuna nær fólkinu, eins og gert var hér. Það var bylting þegar blóðskilunardeild var opnuð á Akureyri 2015. Áður þurfti fólk utan af landi að fara til Reykjavíkur þrisvar í viku, alveg sama hvernig viðraði, í sumum tilfellum flutti fólk til Reykjavíkur og dæmi voru um að fólk ákvað að þiggja ekki meðferð.“

  • BLÓÐSKILUN – Nýrun sjá m.a. um að hreinsa blóðið af úrgangsefnum og steinefnum og útskilja umfram vökva en ef afkastageta þeirra minnkar verulega er hugað að meðferð til að bæta hana upp. „Þau meðferðarúrræði sem um er að velja eru skilun, ígræðsla nýra eða einkennameðferð. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hvaða meðferð kemur til greina og hentar,“ segir á heimasíðu Landspítalans. Nánari neðst í fréttinni.

„Mikil áhersla er á það í náminu hvað er hægt að gera til að bæta lífsgæði sjúklinga með nýrnasjúkdóm, og aðra sjúkdóma sem eru áhættuþættir fyrir nýrnasjúkdóma, til dæmis sykursýki, ofþyngd og háan blóðþrýsting; hvernig hægt er að hjálpa einstaklingum til að lífa betra lífi með því að leggja áherslu á ýmsa félagslega þætti, hreyfingu, mataræði – sem er mjög mikilvægt, stuðningi við fjölskyldu viðkomandi, og hvernig er hægt að samtvinna grunnheilbrigðisþjónustu, sérhæfða þjónustu og sjúklinginn.“

Átta manns eru nú í meðferð á blóðskilunardeild SAk og meðferðin er nú einnig í boði á Selfossi, Ísafirði og í Neskaupstað.

Lífstílssjúkdómar áskorun

Jóhanna segir nýrnasjúkdóma oft liggja í ættum en ýmsar orsakir séu fyrir nýrnabilun. „Sumir sjúkdómar eru meðfæddir, til dæmis blöðrunýru, hár blóðþrýstingur og sýkingar geta  líka valdið nýrnaskaða, og áverkar geta orðið á nýrum þegar fólk lendir í slysi.“

Lífstílssjúkdómar eru stærsta áskorunin um þessar mundir, segir hún, vegna þess að sykursýki og ofþyngd eru stórir áhættuþættir.

„Þeim fjölgar sem fá sykursýki og fólki í ofþyngd fjölgar líka. Eitt af markmiðum mínum þegar ég fór í námið var að snúa þessu ferli við eða að minnsta kosti hægja á því; að geta hjálpað fólki að velja þá möguleika sem í boði eru.“

Fyrirbyggjandi starf er Jóhönnu mjög hugleikið og hún hefur sterkar skoðanir:

„Ef ég réði myndi ég til dæmis fyrir alla muni sjá til þess að börn í leik- og grunnskólum fengju heilnæman mat á skólatíma. Það er frumskilyrði, en skólamötuneytum er skaffað allt of lítið fé.“ Hún segir ekki víst að allir tími að borga mataráskrift fyrir börnin sín og því væri æskilegt að foreldrar þyrftu ekki að greiða fyrir matinn.

Misjafnt milli skóla

„Þetta er mjög misjafnt á milli skóla; öll mín börn voru á Þelamörk þar sem var fullkominn morgunmatur og hádegismatur, en ég myndi ekki bjóða mínum börnum upp á þann ólystuga mat sem víða hefur verið á boðstólum í skólum.  Dæmi eru um að ekki sé nema 1/3 af börnum í mat og fáir á unglingastigi. Góður matur og hreyfitími á hverjum einasta degi, bæði í leik- og grunnskólum, geta skipt sköpum. Ekki æfa öll börn íþróttir þannig að þetta er mjög mikilvægt og hefur mikið forvarnargildi.“

_ _ _ _

BLÓÐSKILUN

Tilgangur skilunarmeðferðar er að koma í stað þeirrar starfsemi nýrnanna sem hefur skerst og hreinsa úrgansefni, steinefni og vökva úr blóðinu. Jafnframt er sýrustig líkamans leiðrétt. Til að blóðskilun sé möguleg þarf að skapa aðgengi, æðaaðgengi, að blóðrás líkamans um bláæð. Það er hægt að gera með fistli, gerviæð (grafti) eða ígræddum blóðskilunarlegg. 

Í blóðskilunarmeðferð er æðaaðgengið tengt við tvær slöngur á blóðskilunarvél. Blóð er dregið út úr líkamanum um aðra slönguna, því dælt í gegnum blóðskilunarvél og filter (skila) á henni og síðan dælt aftur inn í líkamann. Um er að ræða lokaða hringrás og aðeins brot af blóði líkamans er utan hans í einu. Í filternum á sér stað hreinsun og leiðrétting á úrgangsefnum og steinefnum ásamt því að vökvi sem hefur safnast upp er skilinn út. Læknir gefur fyrirmæli um hversu löng hver blóðskilunarmeðferð er. Til að byrja með er hún framkvæmd oft en stutt í einu til að koma í veg fyrir óþægindi sem geta komið fram ef úrgangsefnin eru hreinsuð of hratt úr líkamanum.

Eftir fyrstu skiptin er tíminn lengdur, oftast í 3 - 4 klukkustundir í senn þrisvar sinnum í viku.