Fara í efni
Fréttir

Vilja stuðla að meiri virkni eldri borgara

Að lokinni undirritun samningsins. Karl Erlendsson formaður EBAK og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) og Akureyrarbær hafa gengið frá samningi þess efnis að taka höndum saman um að tryggja eldri borgurum á Akureyri aðgang að eins góðu félags- og tómstundastarfi og þörf er á hverju sinni, eins og það er orðað. Samningurinn gildi til ársloka 2025.

„Samningurinn felur í sér að Akureyrarbær leggur EBAK til húsnæði og rekstur þess, starfsfólk vegna starfs í félagsmiðstöðvum og rekstrarstyrk að upphæð 5 milljónir króna á samningstímanum. EBAK skipuleggur ýmsa starfsemi í félagsmiðstöðvum eldri borgara og virkjar frumkvæði þeirra til ánægjulegrar samveru,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.

„Markmið samningsins er að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins. Félags- og tómstundastarfi fyrir eldri borgara á vegum Akureyrarbæjar er fyrst og fremst ætlað að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og stuðla að meiri virkni og þátttöku eldri borgara.

Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Bugðusíðu og Víðilundi eru opnar allt árið en opnunartími og þjónustuframboð er þó minna í sniðum yfir sumartímann.“