Fara í efni
Fréttir

Skoða fleiri staði fyrir heilsugæslu

Fyrr í vetur var ákveðið að ný heilsugæslustöð norðan Glerár yrði á horni Undirhlíðar og Skarðshlíðar – á stóru grasflötinni við hringtorgið á myndinni – en meirihluti bæjarráðs Akureyrar samþykkti í vikunni að valkostir fyrir staðsetningu stöðvarinnar verði skoðaðir betur.

Á sínum tíma var einnig horft til lóðarinnar við gamla Sjafnarhúsið nyrst í bænum, eins og Akureyri.net greindi frá um miðjan nóvember, en þar verður verslunarmiðstöðin Norðurtorg opnuð síðar á árinu. 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, Gunnar Gíslason, Sjálfstæðisflokki, Halla Björk Reynisdóttir, L-listanum og Hlynur Jóhannsson, Miðflokksmaður, samþykktu á fundi bæjarráðs að aftur yrði auglýst eftir leiguhúsnæði undir heilsugæslu norðan Glerár. Þau leggja þó áherslu á að slík skoðun leiði ekki til þess að málið tefjist umtalsvert.

Tveir bæjarráðsmenn, Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, og Sóley Björk Stefánsdóttir, VG, eru á öndverðum meiði og vilja að heilsugæslustöðin verði á jarðhæð fjölbýlishúss sem byggja á við Skarðshlíð, eins og ákveðið hafði verið.

Tvær heilsugæslustöðvar eiga að leysa af hólmi þá einu, sem árum saman hefur verið í miðbænum. Sunnan ár verður nýja heilsugæslan á gamla tjaldstæðinu, svæði sem afmarkast af Byggðavegi, Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hrafnagilsstræti. Þar verður blönduð byggð og starfsemi; íbúðir, verslanir og þjónusta.

Stefnt er að því að starfsemi heilsugæslunnar verði flutt í nýju stöðvarnar tvær árið 2023.

Nú verður á ný auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir norðurstöð heilsugæslu þannig að aðrir möguleikar en Skarðshlíð 20 komi til greina. „Áfram verði unnin skipulagsvinna fyrir Skarðshlíð 20 og er gert ráð fyrir að aðal- og deiliskipulagsbreyting verði auglýst á næstu vikum og taki gildi á vormánuðum. Er gert ráð fyrir að lóðin verði hluti af auglýsingunni sem felur í sér að aðilar geta annað hvort lagt fram nýjan uppbyggingarkost eða þá boðið leiguhúsnæði með því að byggja á Skarðshlíð 20,“ segir í fundargerð bæjarráðs.

Hilda Jana og Sóley Björk lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Val á staðsetningu fyrir heilsugæslu á Akureyri norðan Glerár hefur verið langt, flókið en um leið vandað ferli. Eftir opið auglýsingaferli var niðurstaðan að Skarðshlíð 20 væri heppilegasta staðsetningin fyrir heilsugæslu norðan Glerár og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju sinni með það staðarval miðað við þeirra forsendur. Þá kallast staðsetningin vel á við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn. Við teljum uppbyggingu heilsugæslu við Skarðshlíð vænlegan kost og engar nýjar málefnalegar ástæður vera til að breyta því staðarvali. Mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri verði teknar í notkun eins fljótt og hægt er.“