Fara í efni
Fréttir

Vilja skapa sterkt samfélag nýsköpunar

Vinnur þú að nýsköpun tengdri vatni eða mat, ellegar á sviði sjálfbærni eða orku? Fyrstu regnhlífarsamtök nýsköpunar á landsbyggðinni, Norðanátt, hvetja fyrirtæki á Norðurlandi til að sækja um þátttöku í verkefninu Vaxtarrými, svokölluðum viðskiptahraðli fyrir sprotafyrirtæki, frumkvöðla og nýsköpunarverkefni innan rótgróinna fyrirtækja, sem er á döfinni fljótlega. Sjálfbærni, orka, vatn og matur eru sérstaklega nefnd í því sambandi. Umsóknarfrestur rennur út næstkomandi mánudagskvöld.

„Norðanátt byggir á hringrás árlegra viðburða þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af lausnamóti, vinnusmiðju, viðskiptahraðli og fjárfestamóti,“ segir í tilkynningu.

„Næsti liður í hringrásinni er viðskiptahraðallinn Vaxtarrými. Verkefnið er sérhannað með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli. Hraðallinn fer að mestu leyti fram á netinu sem hentar frumkvöðlum á landsbyggðinni vel þar sem þau er staðsett á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi.“

Nýsköpun í landsfjórðungnum

Norðanátt er samstarfsverkefni stuðningsaðila í nýsköpunarumhverfinu á Norðurlandi sem miða að því að skapa kraftmikið umhverfi í landsfjórðungnum fyrir nýsköpun, eins og segir í tilkynningunni.

Að verkefninu koma:

  • Eimur  – Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, sem hefur að markmiði að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi. Ætlunin með samstarfinu er meðal annars að byggja upp atvinnulíf og auka verðmætasköpun á svæðinu, með sérstakri áherslu á sjálfbærni, grænar lausnir, nýsköpun og hátækni.
  • SSNV – Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
  • SSNE – Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
  • Nýsköpun í norðri – verkefni sem Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit blésu til í tengslum við sameiningarviðræður sveitarfélaganna.
  • Ráðgjafaryrirtækið RATA.

„Síðustu misseri hefur nýsköpun í matvælaframleiðslu og sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda vaxið fiskur um hrygg. Það er því sannarlega réttur tímapunktur að setja á stofn Norðanátt, sem mun gegna lykilhlutverki í því að koma öflugum hugmyndum á næsta stig,“ er haft eftir Sveini Margeirssyni, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, í tilkynningunni.

Hér má sjá upptöku af kynningarfundi Norðanáttar um viðskiptahraðalinn Vaxtarrými á mánudaginn.