Fara í efni
Fréttir

Viðtals- og símabókanir í gegnum vef bæjarins

Það er ef til vill tímanna tákn að frétt á vef Akureyrarbæjar í liðinni viku byrjaði svona: More languages below. Fréttin var þó ekki um tungumál heldur um efni sem ætla má að eigi erindi einnig við þá íbúa Akureyrar sem hafa annað tungumál en íslensku sem fyrsta mál. Neðst í fréttinni er meginefni hennar útskýrt á ensku, pólsku og úkraínsku.

Í umræddri frétt er sagt frá því að nú sé hægt að bóka símtal eða viðtal hjá hinum ýmsu ráðgjöfum og fulltrúum Akureyrarbæjar í gegnum vefinn Akureyri.is. Þar er kominn upp nýr tímabókunarhnappur hægra megin á forsíðunni. 

Hefðbundna leiðin sem fólk þekkir, að bóka símtöl og viðtöl í gegnum þjónustuver bæjarins, verður að sjálfsögðu áfram opin, en Akureyrarbær hvetur bæjarbúa til að nýta sér þessa nýju leið. Bent er á að formið sé einfalt í notkun og með þessari nýjung geti íbúar sótt þjónustuna þegar þeim hentar. Fólk þarf svo ekki að hafa áhyggjur af því að gleyma bókuðum tíma því send eru út smáskilaboð til áminningar degi fyrir bókaðan fund.

Tekið er fram að bókunarkerfið sé í stöðugri þróun og á næstu mánuðum verði það útvíkkað enn frekar með fleiri möguleikum á tímabókunum.

Markmið Akureyrarbæjar er að veita notendamiðaða þjónustu á öllum sviðum og með innleiðingu stafrænna lausna er þjónustan bætt enn frekar, skilvirkni aukin og aðgengi að hinum ýmsu þjónustuleiðum bætt til muna,“ segir í fréttinni og þar er upptalning sem sýnir hvaða ráðgjafar og fulltrúar eru nú þegar komnir inn í þetta bókunarform.

Hægt er að bóka viðtal hjá:

  • Ráðgjafa í félagsþjónustu
  • Ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks
  • Húsnæðisfulltrúa
  • Verkefnastjóra félagslegrar liðveislu
  • Launafulltrúa

Hægt er að bóka símtal frá:

  • Ráðgjafa í félagþjónustu
  • Ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks
  • Ráðgjafa í stuðningsþjónustu
  • Húsnæðisfulltrúa
  • Verkefnastjóra félagslegrar liðveislu
  • Ráðgjafa í Barnavernd
  • Barna- og fjölskylduráðgjöf
  • Launafulltrúa