Fara í efni
Fréttir

Viðrar sérlega vel til flugeldaveislu

Flugeldasýning Súlna á gamlárskvöld er jafnan mikið sjónarspil. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
Flugeldasýning Súlna á gamlárskvöld er jafnan mikið sjónarspil. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Mjög góð veðurspá er fyrir daginn og kvöldið. Frost verður frá sex að átta stigum og nánast logn í allan dag, og svipað á miðnætti. Flugeldar ættu því að sjást mjög vel, bæði á miðnætti og klukkan níu í kvöld – 21.00 – þegar björgunarsveitin Súlur býður til mikillar flugeldaveislu. Sveitin skýtur að þessu sinni upp frá bílaplani Norðurorku á Rangárvöllum og ætti ljósadýrðin að sjást vel víðast hvar í bænum.

„Við flytjum okkur aðeins ofar í bæinn með sýninguna en venjan er, til þess að sem flestir geti notið þess að horfa á hana heima hjá sér. Það er betra en fólk hópist saman á einum stað,“ segir Gunnlagur Búi Ólafsson, formaður Súlna við Akureyri.net. Löng hefð er fyrir flugeldasýningunni. „Það er búið að fresta flestu í þessu blessaði kófi en ekki kom til greina að fresta sýningunni,“ sagði formaðurinn. 

Gunnlaugur Búi segir flugeldasölu hafa gengið vel. „Flestir kaupa aðallega fjölskyldupakka og tertur, þeir sem ekki eru með börn taka nánast bara tertur en margir eru líka með einn góðan, sérstakan flugeld til þess að skjóta upp á miðnætti,“ sagði hann. Sala flugelda er lang mikilvægasta fjáröflun Súlna, eins og annarra björgunarsveita á hverju ári. „Ég vil þakka bæjarbúum kærlega fyrir stuðninginn og hvet alla til að fara varlega og vera með hlífðargleraugu,“ sagði Gunnlaugur. „Við stöndum og föllum í raun með flugeldasölunni, ég tala nú ekki um á þessu ári, þegar við gátum ekki selt Neyðarkallinn okkar vegna Covid.“

Flugeldasala Súlna við Hjalteyrargötu er opin frá 8.30 í dag til 16.00. Hægt er að kaupa í netverslun sveitarinnar til klukkan 10.00 og sækja pantanir til kukkan 16.00 í gám á plani SBA við Hjalteyrargötu.

Rétt er að minna á að enginn brenna verður á Akureyri í kvöld, sakir samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.