Fara í efni
Fréttir

Fyrirgef aldrei lokun neyðarbrautarinnar

Akureyringurinn Viðar Sigurjónsson segist aldrei munu fyrirgefa að neyðarbrautinni svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli hafi verið lokað á sínum tíma án þess að áður hafi verið fundin önnur lausn. Viðar var í sjúkraflugvél Mýflugs sem gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli í gær vegna veðurs. Hann var á leið í hjartaþræðingu á Landspítalanum.

Viðar og sjúklingur sem sóttur var til Egilsstaða í gær og flytja átti í Landspítalann í sömu erindagjörðum vörðu nóttinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Báðir voru fluttir með flugi suður í morgun og voru drifnir í þræðingu um leið og komið var á áfangastað.

„Ég upplifði nákvæmlega það sem ég óttaðist þegar ákveðið var að loka neyðarbrautinni á sínum tíma,“ sagði Viðar í samtali við Akureyri.net í dag, að aðgerð lokinni.

„Alvarleg og galin“ ákvörðun

„Það var pólitísk ákvörðun að loka neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli á sínum tíma og ég mun aldrei fyrirgefa þá gjörð fyrst ekki var búið að finna aðra lausn áður,“ segir Viðar. Hann nefnir engin nöfn; í stóra samhenginu skipti þau ekki máli heldur sú staðreynd hve „alvarleg og galin“ ákvörðunin var.

„Ef við eigum einn vatnsbrunn sem heldur í okkur lífi getum við ekki lokað honum fyrr en við finnum annan. Geta ekki allir verið sammála um það?“ spurði Viðar.

„Ef eitthvað annað hefði verið komið í staðinn fyrir neyðarbrautina á sínum tíma hefði þetta ekki verið neitt mál. Það eru léttvægar skýringar að hægt sé að redda þessu með öðrum hætti ef ekkert gerist; nú eru nokkur ár síðan brautin var aflögð og ekkert hefur gerst.“

Ekki var hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli í gær þar sem hann var lokaður. Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, sagði við Akureyri.net í gærkvöldi að vegna mikils hliðarvinds hefði ekki verið hægt að lenda á Reykjavíkurflugvelli en hefði neyðarbrautin enn verið opin hefði það ekki verið vandamál. Hún lá frá norðaustri til suðvesturs og hefði brautin verið opin hefði vélin getað lent á móti vindi.

Þegar spurt er hvernig honum leið í fluginu segir Viðar erfitt að svara því. „Hvernig heldurðu að mér hafi liðið þegar okkur var tilkynnt að við þyrftum að fljúga norður aftur?“

Væri ekki til frásagnar

„Ég get ekki lýst því hvernig mér leið eða hvað ég hugsaði og veit ekki hvort fólk getur sett sig í mín spor. Ég veit þó að hefði ég fengið áfall á leiðinni suður í gær væri ég hugsanlega ekki til frásagnar í dag fyrst ekki var hægt að lenda,“ segir hann.

Bætir síðan við: „Mér fannst ég sjá það í andlitum allra um borð í flugvélinni þegar við snérum við yfir Reykjavík að þeim leið jafnvel verr en okkur sjúklingunum.“

Óvissan var mikil. „Ég vissi ekkert um hversu alvarlegt ástandið var á mér í gær. Enginn læknir getur fullyrt neitt um það fyrr en í þræðingunni sjálfri, það er eina myndin sem sýnir ástandið nógu vel.“

Viðar hrósar öllu starfsfólkinu sem sinnti honum í gær og í dag í hástert. „Þeir fá allir 12 í einkunn af 10 mögulegum. Stórkostlegt fólk, fagfólk fram í fingurgóma. Flugmenn, læknir og sjúkraflutningamenn um borð í vélinni, læknar og aðrir á sjúkrahúsunum báðum.“

Þetta var í fjórða skipti sem Viðar Sigurjónsson fer í hjartaþræðingu. „Mér hefur alltaf liðið vel í aðgerðinni sjálfri enda í höndum frábærs fagfólks. Stóra málið er að koma manni á staðinn; að koma sjúklingnum í þá lífsbjörg sem aðgerðin er. Sú leið verður að vera fær þegar mannslíf getur verið í húfi.“

Frétt Akureyri.net í gærkvöldi:

Sjúkraflugvél snéri frá Reykjavík – „Nú vantaði neyðarbrautina“