Fara í efni
Fréttir

„Við erum öryggisnet sem fólk treystir á“

Sjúkraflutningaskólinn útskrifaði 206 nemendur við hátíðlega athöfn í Flugsafni Íslands á Akureyri í byrjun mánaðarins.

„Þið eruð kannski ekki með lengsta námið miðað við marga aðra en klárlega er ykkar nám ekki minna mikilvægt og verkefnin sem þið eigið eftir að standa frammi fyrir verða örugglega hvorki auðveld né þægileg. En með þekkingu, þjálfun, rólegum huga og jákvæðu hugarfari er ég þess fullviss að þið eigið eftir leysa verkefni ykkar vel af hendi!“ sagði Ingimar Eydal, skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, þegar hann ávarpaði nemendur á athöfninni.

Útskriftarnemar sem mættu til útskriftar í Flugsafni Íslands á Akureyri 2. júní síðastliðinn.

„Munið að sinna öllum skjólstæðingum eins og þið væruð að sinna ykkar nánustu. Það hefur engin kosið sér þá stöðu að leita eftir okkar þjónustu og við erum öryggisnet sem fólk treystir á þegar veikindi eða slys ber að höndum. Mikilvægast í okkar þjónustu er að láta okkur annt um okkar skjólstæðinga! Það á að vera okkar markmið,“ sagði skólastjórinn.

  • 96 útskrifuðust með grunnréttindi sem sjúkraflutningamenn, EMT, eftir 260 klst nám 

Hluti grunnámskeiðsins er 60 tíma starfsþjálfun, að sögn Ingimars Eydal, skólastjóra; á sjúkrabílum og á bráðamóttökum, auk þess sem nemar fá fjögurra tíma kynningu með neyðarvörðum 112.

Ingimar nefndi að af þessum 96 nemendum voru 36 sendir sendur á vegum rekstraraðila sjúkraflutninga en 60 komu á eigin vegum. 43% nemenda voru konur en 56% karlar. 

  • 28 útskrifuðust með framhaldsmenntun í sjúkraflutningum, AEMT, eftir 413 klst nám 

„Reynslan er sú að allflestir sem fara að vinna við sjúkraflutninga bæta þessu námi við sig enda gert ráð fyrir því í verkferlum. Þetta framhaldsnám byggir á framhaldsnámi í Bandaríkjunum sem nefnt er EMTAdvanced og byggir á námsefni þaðan sem hefur verið þýtt og staðfært eins og reyndar grunnnámskeiðið og vettvangsliðanámið líka,“ sagði skólastjórinn við útskriftina.

  • 82 útskrifuðust sem vettvangsliðar, EMR, eftir 42 klst nám

Þetta nám er ætlað þeim sem eru líklegir til að verða fyrstir á vettvang slysa, svo sem lögreglu, slökkviliðs- eða björgunarsveitarmönnum og öðrum skipulögðum hópum, „þar sem langt er í aðrar bjargir eða veita þarf sérstaka þjónustu áður en sjúkraflutningafólk kemur á vettvang. Námskeiðið er byggt á viðurkenndum bandarískum staðli og staðfært að íslenskum aðstæðum og inniheldur bæði bóklega og verklega kennslu,“ sagði Ingimar Eydal.

Margvísleg verkefni

Á vef Sjúkraflutningaskólans kemur fram að auk þeirra námskeiða sem greint er frá að framan sinni skólinn endurmenntunarnámskeiðum fyrir heilbrigðisstarfsfólk auk þess sem að bjóða upp á endurlífgunarnámskeið frá evrópska endurlífgunarráðinu fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Að auki sinnir skólinn heilbrigðisstofnunum víða um land „með ný- og símenntun sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga og lækna. Frá síðustu útskrift hefur skólinn haldið 34 endurmenntunarnámskeið með samtals 274 nemendum,“ sagði skólastjórinn.