Fara í efni
Fréttir

VG hefur haft ótrúleg áhrif til góðs

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á landsfundinum í Hofi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Við Vinstri-græn höfum nú leitt ríkisstjórn í fimm og hálft ár. Raunar höfum við verið í ríkisstjórn í næstum tíu ár á undanförnum tuttugu árum og haft ótrúleg áhrif til góðs á samfélag okkar með þátttöku okkar í ríkisstjórn, langt umfram stærð okkar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna í ræðu sinni við upphaf landsfundar flokksins í Hofi á Akureyri í dag.

Katrín kom mjög víða við í ítarlegri ræðu. „Við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif. Við í Vinstri-grænum vitum reyndar ágætlega að það er hægt að hafa áhrif í stjórnarandstöðu, við kunnum þann slag nokkuð vel. En það er hægt að hafa enn meiri áhrif í ríkisstjórn. Og fyrir hreyfingu sem drifin er áfram af hugsjónum, sem hefur skýra stefnu, þá skiptir öllu máli að hrinda hugsjónunum í framkvæmd, að sjá stefnumálin verða að veruleika,“ sagði formaður VG.

„Fyrir hreyfingu sem drifin er áfram af hugsjónum, sem hefur skýra stefnu, þá skiptir öllu máli að hrinda hugsjónunum í framkvæmd, að sjá stefnumálin verða að veruleika.“Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Katrín sagðist geta staðið á sviðinu fram eftir kvöldi og þulið upp fjölmarga hluti. Enginn vafi léki á því að flokkurinn hefði haft ómæld áhrif á samfélagið með þátttöku sinni í ríkisstjórn. „Mál sem jafnvel hafa þótt jaðarmál þykja nú sjálfsögð. Og jafnan þegar við höfum náð okkar umbótamálum fram getur enginn hugsað sér íslenskt samfélag án þessara umbóta.“

Gerum samfélagið betra

„Við vitum að nái stefna okkar fram að ganga þá gerum við samfélagið okkar betra, manneskjulegra, fjölbreyttara og umburðarlyndara. Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum þá er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja allt til vinna að komast í ríkisstjórn, til að gera sín eigin stefnumál að veruleika. Um þetta snúast stjórnmál, þau snúast um stefnu og áherslu og möguleikann á því að móta samfélag okkar.“

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Katrín sagði alltaf hættu á þreytu þegar flokkar hafi verið lengi við stjórnvölinn. „Við liggjum lágt í skoðanakönnunum og finnum að mótvindurinn um þessar mundir er allnokkur. Ég hef hins vegar verið félagi í þessari hreyfingu ansi lengi – eða 21 ár – og ef ég þekki okkur rétt látum við mótvindinn ekki buga okkur. En í mótvindi getur verið gott að staldra við og leggja nýtt mat á stöðuna, finna bestu leiðina fram á við og halda svo ótrauð áfram.“

Ýmsir aðrir skila auðu

Katrín hélt áfram: „Staðreyndin er sú að ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar skila auðu í mörgum af mikilvægustu áskorunum samtímans en láta sér nægja einföld skilaboð og treysta á að pólitísk umræða snúist aðeins um þau mál sem þeir vilja ræða eða það sem verra er, að umræðan snúist um ekki neitt nema ímynd og aukaatriði. Við Vinstri-græn vitum að það eru engin einföld svör við þeim flóknu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Við erum stödd á umbrotatímum þar sem bæði loftslagsbreytingar og tæknibreytingar eru að verða á ógnvænlegum hraða. Það skiptir öllu hvernig við tökumst á við þessar breytingar og að við tryggjum að umskiptin verði réttlát og sanngjörn fyrir okkur öll.“

Hér er hægt að lesa ræðu Katrínar í heild.