Vetrarfuglatalning: Námskeið á Akureyri
Námskeið í vetrarfuglatalningu verður haldið á Akureyri á fimmtudaginn, 27. nóvember. Það er Fuglavernd sem stendur fyrir námskeiðinu í samstarfi við Náttúrufræðistofnun.
„Sjötíu ár eru frá því byrjað var að telja fuga að vetrarlagi og er markmið talninganna að kanna fjölda og dreifingu einstakra tegunda í mismunandi landshlutum. Einnig nýtast gögnin til að meta stofnbreytingar hjá sumum tegundum. Fuglaáhugamenn hafa frá upphafi borið hitann og þungann af þessu starfi,“ segir í tilkynningu frá Fuglavernd.
„Náttúrufræðistofnun hefur um langt skeið skipulagt fuglatalningar áhugamanna sem sinna þeim í sjálfboðavinnu um áramótin. Sú fyrsta var 21. desember 1952, á stysta degi ársins, og var þá talið á 10 svæðum og er enn talið á sumum þeirra. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt og nú er að jafnaði talið á yfir 200 svæðum árlega. Alls hefur verið talið á um 370 svæðum og eru einstakar talningar orðnar um sjö þúsund.“
Talningasvæðin eru dreifð um láglendi um allt land en flest eru við sjávarsíðuna þar sem flestra fugla er von á þessum árstíma. Samanlögð lengd strandlengjunnar innan talningarsvæðanna er um 1.800 km eða um þriðjungur af strönd Íslands ef hún er 5.000–6.000 km löng. Alla jafna er talið á milli jóla og nýárs ef það hittir á helgi án helgidaga, annars snemma í janúar. Ekkert er því til fyrirstöðu að fleiri en einn telji hvert svæði, vilji fólk skrá sig saman.
Nánar má lesa um námskeiðið á heimasíðu Fuglaverndar:
https://fuglavernd.is/vidburdur/vetrarfuglatalning-namskeid/