Fara í efni
Fréttir

Verum þakklát – ræktum lýðræðið og frelsið

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og fjallkonan, Hildur Lilja Jónsdóttir, nýstúdent frá …
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og fjallkonan, Hildur Lilja Jónsdóttir, nýstúdent frá MA, í Lystigarðinum í dag. Ljósmynd: Ragnar Hólm Ragnarsson

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri hvatti fólk til þess að rækta lýðræðið og frelsið í ávarpi í Lystigarðinum eftir hádegi í dag. Þar hófust formleg hátíðahöld í tilefni þjóðhátíðardagsins eftir að skrúðganga Skátafélagsins Klakks og Lúðrasveitar Akureyrar komu í garðinn, en gangan hófst við Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti.

Í Lystigarðinum var fánahylling og lúðrasveitin lék Rís þú Íslands unga merki. Að því búnu flutti séra Svavar Alfreð Jónsson bænargjörð og blessun, félagar úr Kammerkór Norðurlands sungu og fjallkonan ávarpaði gesti garðsins en hún var að þessu sinni Hildur Lilja Jónsdóttir nýstúdent frá MA.

Að loknu ávarpi bæjarstjórans var haldið niður á Eyrarlandsveg þar sem lögregla, lúðrasveit og skátar stilltu sér upp í skrúðgöngu sem fór niður Spítalaveg og suður Aðalstræti að Minjasafninu, þar sem hátíðahöld héldu áfram.

Ávarp Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra var svohljóðandi:

Gleðilega þjóðhátíð!

Áðan söng kórinn hið yndislega ættjarðarljóð Huldu þar sem því er lýst hvernig þjóðin „lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf.“ Og sú bæn er beðin að áfram megi hún una við „heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ,“ og sérkenni þjóðarinnar verði þau, að hún sé „grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf.“ Það er stór og mikil bæn.

***

Ljóðið var annað tveggja sem unnu til verðlauna við lýðveldisstofnunina árið 1944. Þá hafði seinni heimsstyrjöldin leitt miklar hörmungar yfir alla Evrópu og einmitt þá ákváðu Íslendingar að tímabært væri að lýsa yfir sjálfstæði þjóðar.

Þá horfðu Íslendingar upp á hernám Þjóðverja í Danmörku og voru sjálfir hernumin þjóð af bandamönnum. Það þurfti kjark – og mögulega örlitla fífldirfsku – til þess að segja skilið við danska herraþjóð á þeim viðsjárverðu tímum. En allt var gert án stríðsátaka.

En Íslendingar vildu sjálfstæði. Þeir vildu stjórna sínum málum algjörlega sjálfir, vildu frelsi frá Dönum en gera það með friði. Margir töldu þetta vera kaldar kveðjur til Dana í miðju stríði en þegar heillaóskaskeyti barst frá Danakonungi til fundar Alþingis á Þingvöllum þar sem sjálfstæðinu var lýst yfir vörpuðu flestir öndinni léttar, þrátt fyrir rigningu og rok.

***

Nú, 78 árum seinna, duna enn jarðarstríð eins og árið 1944. Meira að segja í Evrópu. Vargöldin og innrásin í Úkraínu er grátleg og grimmúðleg áminning um það hversu grunnt er á hinu góða og hversu stutt er í illsku mannanna.

Nú, árið 2022, eru mannréttindi að engu höfð í Evrópu. Lýðræðisleg réttindi eru fyrir borð borin. Alþjóðalög eru þverbrotin og síðast en ekki síst er sjálfsákvörðunarréttur og fullveldi þjóðar virtur að vettugi. Þar er hvorki friður né frelsi.

Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð...

Þessi orð Huldu eiga enn við í dag.

***

Okkur Íslendingum ber að hugsa með virðingu og þakklæti til þeirra sem tóku af skarið árið 1944 og stofnuðu Lýðveldið Ísland þegar Evrópa öll stóð í ljósum logum stríðsátaka. Þar vantaði ekki kjarkinn.

Verum þakklát fyrir það sem við höfum og ræktum lýðræðið og frelsið. Því það er viðkvæmt og getur svo hæglega kafnað í doða, værð og sinnuleysi. Það lýsir sér m.a. í lélegri kjörsókn í kosningum. Við þurfum að rækta samtalið og hvetja ALLA til þátttöku í uppbyggilegri umræðu um sérhvert mál. Lýðræðið blómgast þegar sem flestir láta að sér kveða. Gott samfélag einkennist af því að sem flestir taki afstöðu og láti raddir sínar heyrast.

Í dag, þegar við fögnum sjálfstæði okkar og hyllum lýðveldið Ísland, skulum við biðja fyrir fólki sem býr ekki við eins góðar aðstæður og hér eru, fólki sem á hvergi höfði sínu að halla, þeim milljónum sem lagt hafa á flótta burtu frá átthögum sínum og heimili, fólki sem misst hefur allt og býr við ömurlegt hlutskipti. Fólk sem býr hvorki við frelsi né frið.

Sýnum mannúð og miskunn.

***

Í síðustu viku ók ég um Þorskafjörð fyrir vestan og nam staðar við Skóga hvar þjóðskáldið okkar Matthías Jochumsson fæddist. Ég þurfti að hugsa um hvað ég ætti að segja hér í dag. Ég held að Ísland hafi varla alið annan eins mannvin, annan eins andlegan jöfur, annað eins skáld. Matthías varð prestur á Akureyri 1886 og bjó hér til dauðadags 1920.

Guð forði mér frá því að líkja mér á nokkurn hátt við Matthías Jochumsson – en í auðmýkt minni finn ég þó til ofurlítillar tengingar við Matthías að því leyti að hann kom vestan úr Breiðafirði eins og ég – og hann tók miklu ástfóstri við Akureyri eins og ég hef gert.

***

Mig langar að ljúka þessu stutta ávarpi með tilvitnun í einn af ótal sálmum þjóðskáldsins en hann var tíðum sunginn í kirkjum landsins í seinni heimsstyrjöldinni þegar óvissan og ógnin knúðu hvarvetna dyra og almenningur bað um frið og frelsi.

Faðir andanna,
frelsi landanna,
ljós í lýðanna stríði,
send oss þitt frelsi,
synda slít helsi,
líkna stríðanda lýði.

Gleðilega þjóðhátíð!

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og fjallkonan, Hildur Lilja Jónsdóttir, nýstúdent frá MA, í Lystigarðinum í dag. Ljósmynd: Ragnar Hólm Ragnarsson