Fara í efni
Fréttir

Verslun Sports Direct opnuð á Norðurtorgi

Kristófer Leó Ómarsson, verslunarstjóri Sports Direct á Akureyri, klippir á borða þegar verslunin var opnuð í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stórverslun Sports Direct var opnuð í morgun í verslunarkjarnanum Norðurtorgi og þar með er húsið fullnýtt; fyrir eru verslanir Rúmfatalagersins, Ilvu og Bónus.

Verslunin er stór og þar kennir ýmissa grasa. „Þetta er það nýjasta sem Sports Direct er að gera, bæði í Bretlandi og annars staðar í Evrópu,“ sagði Kristófer Leó Ómarsson, verslunarstjóri, um útlit búðarinnar við Akureyri.net eftir að hann klippti á borða í tilefni opnunarinnar.

„Upplifun viðskiptavinarins á að vera önnur og betri en hún hefur verið þegar hann kemur inn í Sports Direct búð, hér hafa verið sett upp ljósaskilti og búðin máluð björtum litum,“ segir Kristófer. Og um vöruúrvalið segir hann: „Hér er eitthvað fyrir alla, við erum með ýmsan venjulegan fatnað, að sjálfsögðu íþróttavörur af öllu tagi, fyrir sund, hjólreiðar, golf, fótbolta, körfubolta ... “ telur hann upp. „Innst í búðinni er svo merki sem heitir USC og þar er tískuvara, til dæmis Armani, Hugo Boss, Calvin Klein og Tommy Hilfiger.“

Sports Direct hefur yfir að ráða 1750 fermetra plássi á tveimur hæðum á Norðurtorgi. Á neðri hæð er móttökusvæði og lager en verslunin sjálf  á eftir hæðinni er hátt í 900 fermetar að gólffleti.