Fara í efni
Fréttir

Verslun Krónunnar opnuð á Akureyri í dag

Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Fyrsta verslun Krónunnar á Akureyri verður opnuð í dag klukkan 9.00 að Tryggvabraut 8. Verslunarrýmið er alls um 2.000 fermetrar að stærð og mun fjöldi vörutegunda í nýju versluninni hlaupa á þúsundum. Húsnæði Krónunnar að Tryggvabraut er nýtt en fyrsta skóflustunga að versluninni var tekin 15. júní 2021, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í morgun.

Meðal þess sem verður að finna í nýju versluninni er útibú veitingastaðarins RUB23 þar sem hægt verður að fá tilbúna rétti. Jafnframt mun veitingastaðakeðjan Wok On opna í versluninni og bjóða í fyrsta sinn upp á núðlurétti sína á Akureyri, auk þess sem ferskt kjöt verður skorið og pakkað á staðnum.

„Þá geta Akureyringar frá fyrsta degi nýtt Skannað og skundað, þar sem hægt er að skanna vörur með símanum og greiða fyrir í appi. Krónan mun einnig styðja við umhverfisvænan lífsstíl Akureyringa og bjóða umbúðalausar lausnir eins og þurrvörubar, þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að fylla á eigin ílát. Frá áramótum verður jafnframt í boði að fá vörur Krónunnar heimsendar.“

Bjarki Kristjánsson verður verslunarstjóri Krónunnar að Tryggvabraut þar sem á fimmta tug starfsfólks mun starfa. Krónan fagnar opnuninni á Akureyri með margvíslegum hætti næstu daga og verður meðal annars boðið upp á fjölda opnunartilboða af þessu tilefni, segir í tilkynningunni.

Tilhlökkun

„Krónan á Akureyri verður ein af okkar glæsilegustu verslunum. Það er frábært að geta loksins boðið þjónustu okkar og vöruúrval til íbúa Akureyrar og nærliggjandi sveita,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. „Við erum einnig spennt að sjá hvernig verður tekið í stafrænu lausnir okkar en Skannað og skundað er sjálfsafgreiðslulausnin sem getur sparað heilmikinn tíma við innkaupin og einfaldað lífið á ýmsan máta. Einnig munum við bjóða upp á þjónustu vefverslunar á nýju ári. Við hlökkum til undirbúnings jólanna með Akureyringum og fögnum því einnig að nú eru nærri fimmtíu nýir starfsmenn sem við bjóðum innilega velkomna í Krónuteymið.“

Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri segir starfsfólkið hafa orðið vart við mikla eftirvæntingu fyrir opnun Krónunnar á Akureyri og því sé mjög ánægjulegt að hún skuli loksins orðin að veruleika. „Við viljum að Krónan komi sem ferskur andblær inn á markaðinn og auki fjölbreytnina sem fyrir er á Akureyri. Ekki aðeins þegar kemur að ferskvöru heldur verðum við einnig með tilbúna rétti frá Wok On og RUB 23. Sjálfur er ég sérstaklega spenntur fyrir því að kynna kjötpökkunina, þar sem tveir lærðir kjötiðnaðarmenn skera og pakka kjöti á staðnum Við opnun núna um mánaðamót og svo koma jólin. Þetta er háannatími og við hlökkum til.“