Fara í efni
Fréttir

Veröldin er opin þeim sem er læs

Lestur og lestrarkennsla hafa verið í brennidepli upp á síðkastið. Mikið er fjallað um ástandið og ekki síst hvernig best sá að standa að málum. Ekki er ofmælt að þar sýnist sitt hverjum. Sverrir Páll Erlendsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri til áratuga, veltir vöngum um þetta mikilvæga málefni í fróðlegri grein sem birtist á Akureyri.net í morgun.

„Nú er mikið talað um treglæs eða jafnvel ólæs börn í skólum – reyndar upp eftir skólakerfinu. Um þetta eru skrifaðar greinar og gerðir sjónvarpsþættir og alls konar sérfræðingar dregnir upp á dekk, jafnvel sérfræðingar sem aldrei hafa komið í skóla nema sem nemendur. Og til verða kenningar um að þessi kennsluaðferð sé vond og önnur góð, jafnvel að skólarnir séu í tómu tjóni og geri allt vitlaust,“ skrifar Sverrir Páll.

Sverrir Páll segir ennþá til ömmur og afa sem kenna barnabörnum sínum lesa, eins og hann ólst sjálfur upp við, en það sé ekki eins algengt og var. „Við verðum hins vegar að treysta því að börn verði læs. Það gerum við með því að leiðbeina þeim heima. Foreldrarnir eru svo mikilvægir leiðbeinendur. Við gerum það með því að treysta grandvörum og reyndum kennurum, vinna með þeim og viðurkenna að þeir eru sérfræðingar í sínu fagi. Við verðum líka að treysta rannsóknarstofnunum, sem hafa unnið að lestrarvísindum árum saman. Og trúlega er mikilvægast af öllu að við eignumst sem allramest af lesefni sem hæfir nemendum á öllum sviðum, lesefni sem börnin geta fundið sig í og parað sig við, lesefni sem grípur athygli þeirra og áhuga, og mokum því inn á skólabókasöfnin. Það á nefnilega að vera gaman að lesa og þegar maður hefur lært það getur maður lesið hvað sem er, auðvelt og erfitt, nýtt og gamalt. Veröldin er opin þeim sem er læs.“

Smellið hér til að lesa grein Sverris Páls.