Fara í efni
Fréttir

Verkfall hefur mikil áhrif á Akureyri

Lok, lok og læs! Sundlaug Akureyrar er lokuð í dag og verður þar til kjarasamningar nást. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá Ríkissáttasemjara lauk á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu.

Víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB hófust í morgun í 29 sveitarfélögum, eftir að samningafundi fulltrúa samtakanna um nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga lauk á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu.

Ýmis þjónusta á vegum Akureyrarbæjar skerðist eða leggst alfarið niður. 

  • Þjónusta ferlibíla verður verulega skert og strætisvagnar bæjarins ganga ekki.
  • Sundlaugarnar á Akureyri verða lokaðar, sem og laugarnar í Grímsey og Hrísey.
  • Fjölskyldugarðurinn við Sundlaug Akureyrar verður lokaður.
  • Íþróttahús Glerárskóla og Íþróttahöllin á Akureyri verða lokuð. Íþróttahöllin verður lokuð til 17. júní, þegar brautskráning stúdenta frá MA fer fram og hátíðarveisla nýstúdenta um kvöldið. 
  • Þjónusta frá Umhverfismiðstöð skerðist verulega, þ.m.t. sláttur og hirðing í bæjarlandinu.
  • Malbikunarstöðin starfar ekki og þar af leiðandi frestast flestar gatna- og stígaframkvæmdir.
  • Þá mun opnunartími Ráðhúss Akureyrarbæjar skerðast en hann verður frá kl. 11.00 til 12.00. Viðskiptavinum er bent er á að nýta sér rafræna þjónustu eins og kostur er svo sem tölvupóst, netspjall og ábendingargátt á heimasíðu.
  • Vinnuskólinn starfar ekki meðan á verkfalli stendur.