Fara í efni
Fréttir

Verkefnið „Velkomin til Akureyrar“ hlýtur styrk

Mynd: akureyri.is.

Akureyrarbær hlaut á dögunum 1,9 milljóna króna styrk úr uppbyggingasjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra til verkefnis sem kallast Velkomin til Akureyrar. Markmið þessa verkefnis er að stuðla að samstarfi fyrirtækja og stofnana um hvernig megi best taka á móti starfsfólki sem er af erlendu bergi brotið.

Í fréttatilkynningu kemur fram að meðal þess sem verkefnið feli í sér sé að greina stöðuna, ná utan um þær aðferðir sem reynst hafi vel, kortleggja tækifæri til sameiginlegs lærdóms, móta verklag og vinnubrögð og miðla til annarra fyrirtækja og stofnana. Til lengri tíma miði verkefnið að því að fyrirtæki og stofnanir á Akureyri og í Eyjafirði verði þekkt fyrir að taka vel á móti erlendu starfsfólki.

Það er ekki eingöngu Akureyrarbær sem vinnur að þessu verkefni, því samstarfsaðilar hans í því eru SÍMEY, Sjúkrahúsið á Akureyri, Kjarnafæði Norðlenska og Bílaleiga Akureyrar.

Miklar vonir bundnar við verkefnið

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Þórgný Dýrfjörð, forstöðumanni menningar-, markaðs- og atvinnumála hjá Akureyrarbæ, að komið hafi á daginn að mörg fyrirtæki leggi sig mjög fram um að taka vel á móti nýju starfsfólki erlendis frá en margir lýst því að ef til vill skorti eftirfylgni til lengri tíma. „Þá kom í ljós að lítið samtal eða samstarf er á milli aðila um þessi mál. Við erum því mjög spennt að láta á þetta reyna í samvinnu við þessa flottu samstarfsaðila,“ segir Þórgnýr ennfremur.

Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Sjúkrahússins á Akureyri, fagnar samstarfinu og í frétt á vef SAk segir hún að með þessu verkefni gefist tækifæri til að læra af reynslu annarra, samræma verklag og styrkja enn frekar aðlögun nýrra starfsmanna – til hagsbóta fyrir starfsfólk, sjúklinga og samfélagið í heild. „Á Sjúkrahúsinu á Akureyri starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks af erlendum uppruna sem gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja örugga og vandaða heilbrigðisþjónustu. Markviss og hlýleg móttaka skiptir miklu máli, ekki aðeins á fyrstu dögum í starfi heldur til lengri tíma litið,“ segir Erla Björnsdóttir í fréttinni á vef SAk.