Fara í efni
Fréttir

„Verkefnið fer varla af stað næstu árin“

Svæðið á Oddeyri þar sem SS Byggir hefur sýnt áhuga á að byggja. Ljósmynd: SS Byggir/Auðunn Níelsson…
Svæðið á Oddeyri þar sem SS Byggir hefur sýnt áhuga á að byggja. Ljósmynd: SS Byggir/Auðunn Níelsson.

Sigurður Sigurðsson byggingaverktaki telur litlar líkur á að hafist verði handa næstu árin við húsbyggingar syðst á Oddeyri, á reit sem fyrirtæki hans, SS Byggir, hefur sýnt áhuga um hríð. Hugmyndir fyrirtækisins hafa verið umdeildar og bæjarstjórn ákvað í gær að setja tillögu um breytingu á aðalskipulagi reitsins í íbúakosningu.

„Ég sé ekki fyrir mér að þetta verkefni fari af stað næstu árin,“ sagði Sigurður í samtali við Akureyri.net í dag. Hann minnir á að fyrir hendi sé rammaskipulag fyrir blandaða byggð, þar sem gert sé ráð fyrir þriggja til fjögurra hæða húsum, en einstaka hús megi þó vera hærri. „Deiliskipulagið sem nú á að setja í íbúakosningu er því í raun lítil breyting frá rammaskipulaginu.“

Mörgum spurningum ósvarað

Reiturinn afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Strandgötu í suðri, Kaldbaksgötu í austri og Gránufélagsgötu í norðri. SS Byggir á lóð og hús á reitnum en Sigurður segir að fyrirtækið megi ekki byggja upp verkstæði sem þar er nú, vegna þess að gert sé ráð fyrir blandaðri byggð á svæðinu, íbúðum, verslun og þjónustu.

„Mörgum spurningum er ósvarað; ætlar Akureyrabær að kaupa upp eignir, standa að niðurrifi húsa og úthluta síðan lóðum? Hvaða stefnu ætlar Akureyrarbær að taka í skipulagsmálum á Eyrinni, í nánasta umhverfi þessa umtalaða reits?“ spyr Sigurður.

Tillaga skipulagsráðs um breytingar, sem gerðar voru í kjölfar þess að ýmsar athugasemdir og umsagnir bárust, felur í sér að hámarkshæð húsa lækkar úr 25 metrum yfir sjávarmáli í 20 þannig að hæstu húsin geti verið fimm til sex hæðir að hámarki.

Í mesta lagi fimm hæðir

Sigurður segist reyndar ósammála því að miðað við þessi skilyrði geti húsin orðið sex hæðir. „Fimm hæðir er hámark miðað við nútíma kröfur, vegna þess að þegar talað er um að húsin megi mest vera 20 metra yfir sjávarmáli verða byggingarnar aldrei hærri en 17,80 metrar.“

Íbúakosningin, sem bæjarstjórn samþykkti í gær, fer fram fyrir lok maí. Enn á þó eftir að ákveða hvort kosningin verði bindandi eða ráðgefandi, eða hvort sett verður skilyrði um hve stórt hlutfall bæjarbúa þarf að kjósa svo niðurstaðan verði bindandi.

Lóðaskortur – uppsagnir?

Annað mál er svo skortur á fjölbýlishúsalóðum í bænum, sem Sigurður hefur miklar áhyggjur af. „Hér eru engar fjölbýlishúsalóðir til. Það er vandamál fyrir alla verktaka og í okkar tilfelli er það verkefnið í Hálöndum sem heldur fyrirtækinu gangandi,“ segir hann og vísar til orlofshúsabyggðar ofan bæjarins, á leiðinni upp í Hlíðarfjall. „Værum við ekki að vinna þar þyrftum við að segja upp fólki. Á þessu ári hefst bygging 15 orlofshúsa í Hálöndum – sem öll eru seld – og þar með eru húsin orðin 67. Reikna má með að eftir þetta ár geti um 560 manns gist þar í einu. Og á næsta ári er stefnt að því að 15 hús til viðbótar verði tilbúin í Hálöndum.“

Sigurður segir um 100 manns starfa á vegum SS Byggis alla daga, fastir starfsmenn og undirverktakar. „Ef svo fer sem horfir höfum við ekki verkefni handa öllu þessu fólki næsta haust. Það er grafalvarleg staða!“

Smellið hér til að lesa frétt gærdagsins um íbúakosninguna.