Fara í efni
Fréttir

„Verk sem verður ekki undan vikist“

Hallgrímur Skaptason í einni af um það bil 1.000 ferðum á blóðskilunardeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Hallgrímur Skaptason var rúmlega þrítugur þegar uppgötvaðist að hann er með svokölluð blöðrunýru. Hallgrímur er 84 ára og hefur síðustu sex og hálft ár farið í blóðskilun á Sjúkrahúsinu á Akureyri, þrisvar í viku um það bil fjórar klukkustundir í senn.

„Þetta er ansi þvingandi, maður gerir ekki mikið annað á meðan,“ segir Hallgrímur sem alls hefur mætt í vinnuna á blóðskilunardeild SAk í liðlega 1.000 skipti. „Já, ég kallaði þetta fljótlega að fara í vinnuna. Þetta var svo fastur liður í daglegu lífi og verk sem verður ekki undan vikist.“

Nýrun sjá m.a. um að hreinsa blóðið af úrgangsefnum og útskilja umfram vökva en ef afkastageta þeirra minnkar verulega eru meðferðarúrræði fyrir hendi; skilun, ígræðsla nýra eða einkennameðferð. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hvaða meðferð hentar.

Þegar um skilun er að ræða er svokallaður fistill græddur í handlegg sjúklingsins, sem skilunarvélin er svo tengd við til að komast í samband við blóðrásina.

Skilun tekur um það bil fjórar klukkustundir hverju sinni, sem fyrr segir. „Ég gerði svolítið af því fyrst að lesa á meðan ég var í skilun en svo hætti maður því,“ segir Hallgrímur.

Uppgötvaðist um þrítugt

„Þessi ættargalli – blöðrunýru – uppgötvast upp úr þrítugu, ég vissi strax þá að einhvern tíma yrði nauðsynlegt að fara í blóðskilun en ég reyndi að halda því frá mér lengi. Var ekki að hugsa um það alla daga.“

Strax frá byrjun fylgdust læknar vel með Hallgrími. „Magnús Böðvarsson í Reykjavík var nýrnalæknir minn til fjölda ára en það var Shree [Datye] læknir hér á sjúkrahúsinu sem fann fyrstu blöðruna við þreifingu. Það var ekki fyrr en ég var kominn undir fertugt en ég var farinn að finna fyrir þessu og þegar hann skoðaði mig var ég einmitt skakkur innan um mig og skrýtinn. Svo þegar ég fór í hjartaþræðingu kom betur í ljós hver staðan var.“

Hallgrímur var fyrstu sjö vikurnar á blóðskilunardeild Landspítalans í Reykjavík en hefur síðan mætt þrisvar í viku á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hann lýsir yfir mikilli ánægju með aðstöðuna þar, að ekki sé talað um starfsfólkið. Þar hafa sömu hjúkrunarfræðingar verið allan tímann. „Já, og þær sem voru að vinna í dag voru meira að segja þær sömu og tóku á móti mér fyrsta daginn fyrir sex og hálfu ári, þær Sædís og Sólveig,“ segir Hallgrímur og dásamar hjúkrunarfræðingana sem starfa á blóðskilunardeildinni.

  • Rétt er að nefna að Hallgrímur er faðir ritstjóra Akureyri.net, sem þetta skrifar. Viðtalið er tekið í tilefni Alþjóðlega nýrnadagsins, sem var síðastliðinn fimmtudag, að áeggjan Nýrnafélagsins.

Viljum auka lífsgæði nýrnasjúklinga