Fara í efni
Fréttir

„Verður fullkomin stjórnstöð á hjólum“

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, og Reimar Viðarsson, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á svæði 11, við bílinn góða sem lögregluembættið gaf. Myndir af Facebook síðu lögreglunnar.

Bíll sem embætti Lögreglunnar á Norðurlandi eystra hefur gefið svæðisstjórn björgunarsveitanna í Eyjafirði mun skipta miklu máli og án nokkurs vafa reynast vel, að sögn Reimars Viðarssonar, formanns svæðisstjórnarinnar.

„Bíllinn verður fullkomin stjórnstöð á hjólum, á vettvangi slysa eða leitar,“ sagði Reimar við Akureyri.net í dag.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, afhenti bílinn formlega um helgina á ráðstefnu um aðgerðarmál sem fram fór á Húsavík. Einn slíkur bíll er fyrir hendi í Reykjavík og hefur nýst vel við vettvangsstjórn.

Markvissari vinna

Bíllinn verður í umsjá svæðisstjórnar í Eyjafirði sem sér til þess að hann verði ávallt til þjónustu reiðubúinn og verði komið á vettvang. „Svæðisstjórn hefur tekið að sér að innrétta bílinn svo hann henti sem best við að samræma aðgerðir á vettvangi; í honum geta verið fulltrúar allra sem koma að málum, lögreglu, björgunarsveita, slökkviliðs, Rauða krossins og sveitarfélaga, svo ég nefni dæmi,“ segir Reimar.

„Við höfum ekki verið með neitt þessu líkt. Aðgerðarstjórn er saman á Akureyri þegar eitthvað gerist en úti á vettvangi hafa menn unnið dálítið hver í sínu hver í sínu lagi; eftir að við innréttum góða aðstöðu í bílnum verður vinna á vettvangi vonandi markvissari.“