Fara í efni
Fréttir

VERDI ferðaskrifstofa og GolfSaga í samstarf

Golfskólinn á Costa Ballena er á meðal þess sem í boði er undir merkjum VERDI GolfSaga. Mynd: Verditravel.is.

VERDI ferðaskrifstofa og GolfSaga eru að hefja samstarf um sölu á ferðum fyrir kylfinga undir merkjum VERDI GolfSaga. VERDI ferðaskrifstofa varð til í janúar á þessu ári með sameiningu Ferðaskrifstofu Akureyrar og Tónsports ehf., betur þekkt sem VITA sport.

Í tilkynningu fyrirtækjanna um samstarfið kemur fram að GolfSaga hafi skipulagt ferðir fyrir kylfinga í sólina til Spánar síðastliðin 18 ár þar sem viðskiptavinir njóta sín við allra bestu aðstæður til golfiðkunar á fjölbreytilegum áfangastöðum. Meðal áfangastaða er hinn vinsæli golfskóli á Costa Ballena, sem útskrifað hefur ríflega 7.000 kylfinga, sem og ferðir á golfvellina Alcaidesa, Fairplay, Montecastillo og Novo Sancti Petri. Þá kemur einnig fram að áfram verði boðið upp á ferðir til La Sella og ævintýraeyjunnar La Gomera.

VERDI starfrækir tvær söluskrifstofur og er önnur þeirra í miðbæ Akureyrar þar sem Ferðaskrifstofa Akureyrar starfaði áður. VERDI býður upp á úrval sérferða og fyrirtækjaþjónustu, ásamt því að vera leiðandi í íþróttatengdum ferðum.

„Með samstarfinu við GolfSögu erum við að efla vörumerkið VERDI svo um munar. Golfferðirnar falla vel að því sem VERDI vill standa fyrir og bætir verulega spennandi vöruflokki inn í okkar vöruframboð. VERDI er áberandi í íþróttaferðum og munu úrvals golfferðir og samstarf okkar við GolfSögu efla VERDI sem heild. Áfram höldum við að veita alhliða ferðaskrifstofuþjónustu og byggja upp fyrirtæki með mjög hæfu og reynslumiklu starfsfólki í ferðabransanum,“ segir Lúðvík Arnarson, framkvæmdastjóri VERDI í tilkynningu um samstarfið.

„Við horfum björtum augum til framtíðar með ferðaskrifstofunni VERDI og höldum áfram að bjóða viðskiptavinum upp á góða þjónustu og frábæra vöru, nú undir merkjum VERDI GolfSaga. Eftir sem áður bjóðum við upp á ferðir í beinu leiguflugi með Icelandair á vinsælustu golfáfangastaði Íslendinga á Spáni ásamt ýmsum sérverkefnum“ segir Hörður Arnarson, framkvæmdastjóri GolfSögu í tilkynningu félaganna.