Fara í efni
Fréttir

Verðhækkun veitna hækkar fasteignagjöld

Verðskrár veitna Norðurorku hækkuðu um 4,9% frá og með 1. ágúst og veldur sú hækkun jafnframt hækkun á fsteigngjöldum sem greiðendur munu sjá merki um á tveimur síðustu gjlddögum ársins, þ.e. í ágúst og september, að því er frm kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar.

„Yfirleitt er ekki um háar upphæðir að ræða en algeng hækkun fyrir íbúðarhúsnæði er á bilinu eitt til þrjú þúsund krónur sem skiptist á þessa tvo síðustu gjalddaga ársins. Send hefur verið rafræn tilkynning um gjaldskrárbreytinguna til greiðenda á vefnum island.is,“ segir í fréttinni á akureyri.is.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfullrtúi B-lista, gagnrýndi tímasetningu þessara hækkana með bókun á fundi bæjarráðs fyrr í sumar, einmitt vegna þeirra hækkana sem þær valda á fasteignagjöldum núna á tveimur síðustu gjalddögum ársins.

Í tilkynningu Norðurorku er jafnframt stiklað á stóru um yfirstandandi og væntanlegar framkvæmdir í öllum veitum fyrirtækisins og tekið fram að ljóst sé að verðskráin muni áfram litast af þeim. Meðal stórra verkefna má nefna rannsóknir, leit og fjárfestingar vegna aukinnar notkunar á heitu vatni, framkvæmdir við Hjalteyrarlögn, virkjun svæðis að Ytri-Haga á Árskógssandi, endurnýjun á dreifikerfi rafmagns, aðveitulögn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar og lagningu dreifikerfis í ný hverfi, og nýja hreinsistöð fráveitu, sem þykir hafa sannað gildi sitt á þeim tveimur árum sem hún hefur verið starfrækt.

Hér er yfirlit úr tilkynningu Norðurorku um verð hjá hita-, vatns- og fráveitum Norðurorku:

  • Frá 1. ágúst nk. verður rúmmetraverð hitaveitu á Akureyri og nágrennis kr. 160,90. Við bætist umhverfis- og auðlindagjald 2% og virðisaukaskattur 11%.
  • Frá 1. ágúst nk. verður almennt verð dreifingar kr. 4,89 kr. á kWst., flutningsgjald Landsnets kr. 2,00 á kWst. og jöfnunargjald í ríkissjóð er kr. 0,41 á kWst.. Samtals kr. 7,30 á kWst. Við bætist virðisaukaskattur 24% á almenna raforkudreifingu.
  • Frá 1. ágúst nk. verður fastagjald á hverja matseiningu kr. 12.770 og kr. 301,74 á hvern m2. Fráveitugjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af fráveitugjöldum.