Fara í efni
Fréttir

Velferðarstjarnan: Samstaða, hlýja, von

Stjörnur í Slippnum! Frá vinstri, Elva Ýr Kristjánsdóttir, Kristín Anna Kristjánsdóttir, Björn Böðvarsson og Krístín Björk Gunnarsdóttir.

Velferðarsjóður Eyjafjarðar hefur á morgun sölu á Velferðarstjörnunni, sem er samstarfsverkefni sjóðsins, Glerártorgs og Slippsins. Þetta er þriðja árið í röð sem stjarnan er seld en Elva Ýr Kristjánsdóttir og Kristín Anna Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála á Glerártorgi, hafa hannað nýtt útlit stjörnunnar fyrir þessi jól og Slippurinn framleiðir líkt og fyrri ár.

„Velferðarsjóður Eyjafjarðar hefur það að markmiði að starfa allt árið og safna fjármunum sem varið er óskiptum til stuðnings við einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda árið um kring. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að mæta grunnþörfum efnaminni fjölskyldna til að koma í veg fyrir að fjárhagslegir erfiðleikar ógni heilsu þeirra og þátttöku í samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.

Ráðgert er að héðan í frá verði ný hönnun stjörnunnar kynnt á hverju ári sem og því ekki ólíklegt að fólk taki upp á því að safna henni. 

Salan á Velferðarstjörnunni hefst kl. 13.00 á morgun, laugardaginn 8. nóvember, á Glerártorgi „og er mikilvæg viðbót við fjáröflun sjóðsins. Allir sem koma að verkefninu gefa vinnu sína og öll innkoma sem kemur í sjóðinn rennur óskipt til efnaminni einstaklinga og fjölskyldna.“

  • Velferðarstjarnan verður seld í Lindex fram að jólum líkt og fyrri ár, og verður nú einnig til sölu í verslun Heimilistækja, Tölvulistans og Kúnígúnd á Glerártorgi.

Ástsælt tákn samstöðu og kærleika

„Velferðarstjarnan er fallegt og merkingarbært jólaskraut og mikilvægur hluti af fjáröflun Velferðarsjóðsins,“ segir Guðný Jóna Þorsteinsdóttir ráðgjafi hjá sjóðnum og Kristín Björk Gunnarsdóttir formaður stjórnar Velferðarsjóðsins bætir við: „Salan hefur ekki einungis gengið vel síðustu tvö árin heldur hefur hún vakið mikla og jákvæða athygli á Velferðarsjóðnum. Segja má að hún hafi orðið ástsælt tákn samstöðu og kærleika í aðdraganda jólanna.“

Stjörnur í Slippnum! Frá vinstri, Elva Ýr Kristjánsdóttir, Kristín Anna Kristjánsdóttir, Björn Böðvarsson og Krístín Björk Gunnarsdóttir.

Það var vegna vaxandi eftirspurnar um aðstoð síðustu árin að ráðist var í þetta verkefni; í þessa hlýju og skapandi fjáröflun, eins og þær Kristín Björk og Guðný Jóna orða það. „Okkur hefði ekki tekist það nema fyrir velvilja þeirra hjá Glerártorgi og starfsmanna Slippsins sem leggja málefninu lið með sínu ómetanlega framlagi,“ segir Kristín Björk. „Við lítum á Velferðarstjörnuna sem tákn um samstöðu, hlýju og von – þau gildi sem einkenna bæði jólin og samfélagið á Eyjafjarðarsvæðinu. Við hvetjum íbúa Eyjafjarðarsvæðisins til að kaupa stjörnuna og styðja þannig við þau sem þurfa á hjálp að halda í aðdraganda jólanna.“

VELFERÐARSJÓÐUR EYJAFJARÐAR

  • Frá árinu 2013 hafa Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði krossinn við Eyjafjörð haft samstarf um jólaaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna sem á þurfa að halda á Eyjafjarðarsvæðinu.
  • „Vegna aukinnar þarfar á svæðinu stofnuðu þessi félög Velferðarsjóð Eyjafjarðar. Þörfin fyrir aðstoð jókst um þriðjung milli áranna 2020 og 2021 og hefur aukist mikið ár frá ári og um jólin 2024 bárust metfjöldi umsókna um stuðning eða yfir 500 umsóknir.“

Í tilkynningu frá Velferðarsjóðnum segir að með dyggum og ómetanlegum stuðningi fyrirtækja, félagasamtaka, einstaklinga og annarra hafi tekist að sinna aðstoð allt árið um kring. Reynslan sýni að spurn eftir aðstoð aukist verulega í aðdraganda jólahátíðarinnar, það sem af er ári  hafi sjóðurinn úthlutað rúmlega 500 sinnum og búist sé við öðrum eins fjölda umsókna fyrir þessi jól líkt og á síðasta ári.

„Allir styrkir og allt fé sem safnast í sjóðinn verður notað óskipt til kaupa á gjafakortum í matvörubúðum sem afhendist efnaminni fjölskyldum og einstaklingum á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir í tilkynningu sjóðsins.

  • Bent er á að þeir sem vilja styrkja sjóðinn geti sent tölvupóst á netfangið jolaadstod@gmail.com eða lagt beint inn á reikning Velferðarsjóðs Eyjafjarðar: 0302 - 26 - 003533.