Velferðarráð afgreiðir umsóknir um styrki
Velferðarráð Akureyrarbæjar tók nokkrar styrkumsóknir til afgreiðslu á fundi sínum á dögunum. Velferðarsjóður Eyjafjarðar hlaut styrk upp á eina milljón króna, nokkrir lægri styrkir voru einnig veittir en ráðið gat ekki orðið við öllum styrkbeiðnum sem bárust.
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálpræðishersins, Rauða krossins við Eyjafjörð, Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Akureyrar. Upphaflega snerist samstarfið um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu en núna sinnir sjóðurinn velferðaraðstoð á ársgrundvelli. Eins og áður sagði var sjóðnum veitt ein milljón króna í styrk, til að deila út aðstoð til að mæta grunnþörfum efnaminni fjölskyldna. Sjóðurinn sótti um styrk að upphæð 2 milljónir króna. Þá fengu ADHD samtökin styrk upp á 500.000 krónur, með því skilyrði að styrkupphæðinni yrði varið á Akureyri.
Þá sótti Aflið um smástyrk að upphæð 100.000 krónur til að styðja við starf samtakanna við þolendur ofbeldis og Sorgarmiðstöðin sótti sömuleiðis um 100.000 króna smástyrk til að styðja við starf samtakanna við syrgjendur og þau sem vinna að velferð þeirra. Báðar þessar umsóknir voru samþykktar.
Velferðarráð gat hins vegar ekki orðið við beiðni skátafélagsins Klakks um styrk að fjárhæð 2 milljónir króna til að geta boðið upp á víðtækara starf í Þórunnarstræti 99 í formi fjölskylduskátastarfs. Þá óskuðu Stígamót eftir ótilgreindum fjárstuðningi til að styðja við starfsemi félagsins en velferðarráð gat ekki orðið við þeirri ósk.