Fara í efni
Fréttir

Veitingarými við Norðurtorg til leigu

Húsið sem um ræðir er fremst á myndinni, gegnt verslunarmiðstöðinni Norðurtorgi. Mynd: Kasa fasteignir.

Norðurtorg, verslunarmiðstöðin í gamla Sjafnarhúsinu við Austursíðu 2 á Akureyri, hefur auglýst eftir áhugasömum til að reka veitingarými í um 300 fermetra nýrri byggingu gegnt verslunarmiðstöðinni. 

Í auglýsingu frá Kasa fasteignum kemur fram að byggingin sé hugsuð sem veitinga- eða þjónustuhús fyrir Norðurtorgskjarnann. Um bjart rými er að ræða með góðri lofthæð og stórum gluggum út á bílastæðin, að því er fram kemur í auglýsingunni, ásamt góðu útisvæði með átta hraðhleðslustöðvum Tesla. 

Mikil uppbygging er fyrirhuguð á þessu svæði og mun Vínbúðin opna verslun þar í nýrri byggingu á árinu 2024, norðan við núverandi byggingu. Nú þegar eru verslanir Bónus, Sports Direct, Rúmfatalagersins og Ilvu í verslunarmiðstöðinni.

Sjá auglýsingu á fasteignavef Vísis.