Fara í efni
Fréttir

Veitingamann vantar í Hof? – „Mikil tækifæri“

Veitingaaðstaðan í Hofi hefur verið tómleg síðan síðasti rekstraraðili fór þaðan.

Menningarfélag Akureyrar (MAk) hefur á ný auglýst eftir rekstraraðila til þess að sjá um veitingasölu í Menningarhúsinu Hofi. Ekkert veitinga- eða kaffihús hefur verið í húsinu síðan í janúar.

Auglýst var eftir nýjum rekstraraðila þegar kaffihúsið Garún lokaði í byrjun árs og sýndu þá nokkrir veitingarekstrinum áhuga. Að sögn Evu Hrundar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra MAk, var farið í frekari samningaviðræður við tvo veitingaaðila sem drógu síðan tilboð sín til baka af persónulegum ástæðum. Í kjölfarið var haft samband við aðra sem sýnt höfðu rekstrinum áhuga en enginn treysti sér til að stökkva til á miðju sumri. Því auglýsir MAk aftur eftir áhugasömum aðila til þess að sjá um veitingasölu í Hofi. „Síðan síðasti rekstraðili fór úr húsinu höfum við verið í frábæru samstarfi við Múlaberg sem hefur séð um veitingar í tengslum við ráðstefnur, veislur, fundi og aðra viðburði hér í húsinu. Hins vegar finnum við vel fyrir því að fólk saknar þess að geta ekki sest hér niður dagsdaglega í hádegismat eða kaffibolla,“ segir Eva.

Að sögn Evu er allt til alls til veitingareksturs í húsinu, þ.e.a.s helstu tæki, leirtau og húsbúnaður, svo ekki þarf mikinn undirbúning til þess að hefja rekstur. „Það hefur orðið mikil aukning í nýtingu hússins og hér er mikið um að vera. Hof er eitt fallegasta hús bæjarins, og aðstaðan góð, bæði úti og inni, og útsýnið einstakt. Mín skoðun er sú að fyrir réttan aðila þá felast hér mikil tækifæri.“

Aðspurð út í leiguverðið og hvort hún telji ekki að það sé erfitt að hefja nýjan rekstur á miðjum vetri þegar færri ferðamenn eru í bænum en á sumrin svarar Eva því til að leigan sé lægri nú en hún var á sínum tíma og meiri sveigjanleiki varðandi opnunartíma. Þá telur hún að það sé meira svigrúm fyrir rekstaraðila sem eru nú þegar í rekstri til þess að breyta til og hreyfa sig úr stað á þessum tíma árs en á miðju sumri.

Frekari upplýsingar um veitingasöluna eru að finna á www.mak.is.