Fara í efni
Fréttir

„Veit þeir bjarga mér ef ég þarf aðstoð“

Sælir feðgar með áramótaglaðninginn í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sælir feðgar með áramótaglaðninginn í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sala flugelda hófst hjá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri í morgun. „Það hefur verið frekar rólegt hér í dag, eins og venjulega fyrsta daginn. Samt reytingur, en töluvert hefur hins vegar verið um að fólk kaupi á netinu,“ sagði starfsmaður hjá Súlum við Akureyri.net síðdegis. Sveitin selur nú flugelda í fyrsta skipti á netinu og kallar Flugeldamarkað heima í stofu. Netpantanir eru afgreiddar úr gámi við hús SBA-Norðurleiðar, næsta hús sunnan við höfuðstöðvar Súlna við Hjalteyrargötu.

Blaðamaður hitti einn skotglaðan við búðarborðið hjá Súlum í dag. „Ég er mikið á ferðinni vinnu minnar vegna og ég veit að björgunarsveitirnar koma og bjarga mér ef ég þarf á aðstoð að halda. Aðrir flugeldasalar gera það ekki. Það er nauðsynlegt að hafa öflugar björgunarsveitir. Þess vegna reyni ég að styrkja Súlur árlega með því að kaupa töluvert mikið af flugeldum – mér finnst reyndar að banna ætti öðrum að selja þá,“ sagði hann, eftir að hafa keypt áramótaglaðning. Var sæll og glaður og greinilega fullur tilhlökkunar.

Flugeldasalan er opin til kl. 23.30 í kvöld. Á morgun, þriðjudag, og á miðvikudag er opið frá 8.30 til 23.30 og á gamlársdag frá klukkan 8.30 til 16.

Tengill á netsölu Súlna er hér