Fara í efni
Fréttir

„Veisla“ á verkstæðum – nagladekk nauðsynleg?

Löng bílaröð var við Dekkjahöllina í morgun eins og oft áður; þegar akureyri.net leit við á tólfta tímanum var þessum bílum lagt syðst við Austursíðu og náði röðin út á Hlíðarbraut. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hvít jörð var á Akureyri þegar bæjarbúar fóru á stjá í morgun eins og akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Fjöldi bæjarbúa rauk til og ákvað að láta setja vetrardekk undir bílinn og því er handagangur í öskjunni á dekkjaverkstæðum.

Löng röð hafði myndast við Dekkjahöllina snemma í morgun eins og algengt er við fyrstu snjóa og þar var að minnsta kosti þriggja klukkustunda bið eftir því að komast að, skv. upplýsingum starfsmanns. Tugir bíla voru í röð sem náði frá verkstæði fyrirtækisins við Draupnisgötu, út á Austursíðu og þaðan niður á Hlíðarbraut. 

Þeir sem kjósa að láta skipta um dekk hjá Höldi, Nesdekkjum eða N1 þurfa að panta tíma og skv. vefjum fyrirtækjanna er næsti lausi tími ekki fyrr en á miðvikudegi í næstu viku, 29. október. 

Starfsmenn Dekkjahallarinnar skipuleggja vel biðröð við verkstæðið og á bílastæðinu við Draupnisgötu 1, um það bil að bláa strikinu. Segja má að það sé „umráðasvæði“ þeirra, en röðin í morgun náði út að Austursíðu og þaðan niður á Hlíðarbraut.

Eru nagladekkin nauðsynleg?

Akureyrarbær hefur reglulega minnt á það á vef sínum og samfélagsmiðlum að óheimilt sé að nota nagladekk á tímabilinu frá 15. apríl til 31. október, nema af brýnni nauðsyn vegna hálku eða vetraraðstæðna. Nú þegar hafa allmargir bifreiðaeigendur skipt yfir á nagladekkin eins og gangandi vegfarendur heyra vel þegar þeir eru á ferðinni. En eru nagladekkin nauðsynleg?

Akureyrarbær hefur minnt á að nagladekkin eigi sinn þátt í svifryki, auk þess að valda hávaða og slíta malbiki hraðar en önnur dekk með tilheyrandi auknum viðhaldskostnaði. „Það er gott að hafa í huga að ónegld vetrardekk eru góður og öruggur kostur. Í vetrardekkjakönnun FÍB hafa mörg ónegld vetrardekk komið mjög vel út og reynast henta vel við íslenskar aðstæður,“ segir í frétt á vef bæjarins. „Með því að velja ónegld vetrardekk drögum við úr svifryki og sliti á götum – til hagsbóta fyrir umhverfið og samfélagið.“