Fara í efni
Fréttir

„Vegirnir eru víða skelfilegir“

Hjólbarði á bíl sem ekið var frá Akureyri suður á land í gær. Þykkt lag hins bundna slitlags fast á dekkinu þannig að grip er ekkert.

Vegagerðin hvetur fólk, sem er á leið milli Borgarness og Akureyrar, að fresta för ef þess er nokkur kostur og fylgjast vel með gangi máli næstu daga. Á vegum er mjög mikið um bikblæðingar, sem svo eru kallaðar; slitlagið losnar af og festist á dekkjum bílanna, svo veruleg vandræði skapast og margir bílar hafa skemmst mikið, að því er ökumenn hafa tjáð Akureyri.net.

„Vegna bikblæðinganna sem eru víða á leiðinni á milli Borgarness og Akureyrar hvetur Vegagerðin almenning til að fresta för um a.m.k. sólarhring ef þess er nokkur kostur og fylgjast með framvindunni á morgun og næstu daga. Ef það er ekki mögulegt eru ökumenn hvattir til að aka varlega og eins og alltaf og ætíð eftir aðstæðum,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

„Vegagerðin hefur einnig óskað eftir því við flutningaaðila, þá sem sinna vöruflutningum og annari umferð þungra ökutækja, að þeir geri þrennt. Lækki loftþrýsting til að minnka álag, minnki farm og létti þannig ökutækið og dreifi álaginu á vegakerfið svo sem kostur er með því að flutningur fari ekki allur fram á svipuðum tíma dags,“ segir í tilkynningunni.

Ökumaður sem Akureyri.net ræddi við sagði víða stórhættulegt á vegum úti, því erfitt væri að stjórna bíl við þessar aðstæður. Þykkt lag festist við dekkin, sem bíður hættunni heim. „Vegirnir eru víða skelfilegir,“ sagði hann.

Upplýsingar Vegagerðinnar um blikblæðingar