Fara í efni
Fréttir

Vararafstöð væntanleg á slökkvistöðina

Vararafstöð væntanleg á slökkvistöðina

Vararafstöð verður væntanlega komin í gagnið á slökkvistöðinni á Akureyri áður en mjög langt um líður. Málið hefur verið í undirbúningi og slík varastöð árum saman verið á óskalista slökkviliðsins. Fé hefur hins vegar ekki fengist til málefnisins fyrr en á síðasta ári.

Eldur varð laus í Glerárskóla seint í fyrrakvöld, eins og ítarlega var fjallað um hér á Akureyri.net. Þannig vildi til að rafmagn fór af slökkvistöðinni nokkrum andartökum fyrir útkallið og þar með var ekki hægt að opna dyr stöðvarinnar með hefðbundnum hætti, til þess að koma bílunum út! Það tók því lengri tíma en áður en skipti ekki sköpum að þessu sinni.

Dyggir lesendur höfðu samband og trúðu vart fréttum af rafmagnsleysi á slökkvistöðinni og lýstu reyndar sumir yfir töluverðum áhyggjum af því. Töldu næsta víst að varaaflsstöð væri á slíkum stað.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri, svaraði því til þegar Akureyri.net spurði í gær, að vissulega hlyti að vera umhugsunarvert að aldrei hafi verið vararafstöð í húsnæði slökkviliðsins. „Þetta hefur oft komið til umræðu síðustu ár, en í fyrra var veitt fé til verksins. Byrjað er að hanna breytingar á stöðinni, sem meðal annars gera ráð fyrir herbergi undir varaaflsstöð. Okkur dreymdi um að hönnun yrði lokið fyrir áramót svo hægt yrði að bjóða verkið út en vinnan tafðist vegna Covid.“ Kvaðst Ólafur vongóður um framhaldið.