Fara í efni
Fréttir

Varað við eldhættu vegna þurrkatíðar

Kveikt var í þessu tré á klöpp við Lagarfljót í síðustu viku. Sem betur fer náði eldurinn ekki að breiðast út. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Mikil þurrkatíð hefur verið að undanförnu á Norður- og Austurlandi og vegna þess varar Skógræktin fólk sérstaklega við því að fara með eld í skógum og öðru gróðurlendi. Á vef Skógræktarinnar kemur fram að kveikt var í tré í Hallormsstaðaskógi í síðustu viku en til allrar hamingju breiddist eldurinn ekki út.

Að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Austurlandi, rigndi fáeina klukkutíma á Héraði á laugardaginn var en þá hafði ekki rignt í nokkrar vikur svo heitið gæti, „raunar lengur en starfsfólkið á Hallormsstað gat rifjað upp. Svipaða sögu er að segja víðar um Austur- og Norðurland. Gras er ekki tekið að sölna enn að ráði en á því gæti farið að bera fljótlega ef ekki rignir,“ segir á vefnum.

Farið varlega með eld!

„Í ljósi þurrkatíðarinnar er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð um eldhættu í skógi. Tilefnið er ekki síst atvik sem varð í síðustu viku við frisbígolfvöllinn á Hallormsstað þar sem kveikt var í litlu lerkitré. Þór segir að þetta hefði vissulega getað verið á verri stað þar sem meiri hætta var á því að eldurinn breiddist út. Ekki sé þó á slíkt að treysta því dálítill vindur geti feykt neistum í nálægan gróður og dugað til að kveikja stórt bál sem ekki verður við ráðið.“

Fólk er hvatt til að fara varlega með eld og kveikja helst ekki eld á víðavangi. Best sé að notast eingöngu við tilbúin eldstæði eða eldaskála sem víða er að finna á útivistarsvæðum í skógum landsins en ekki útbúa eldstæði á eigin spýtur í skóginum eða á öðrum gróðurríkum svæðum.

Nánar um eldvarnir í gróðurlendi: Verum eldklár!