Fara í efni
Fréttir

Vann slaginn við Sjúkratryggingar

Akureyringurinn Sigríður Matthildur Aradóttir hafði á dögunum betur í baráttu við Sjúkratryggingar Íslands eftir að stofnunin neitaði henni um heyrnaraðgerð. Hún kærði ákvörðun Sjúkratrygginga til Úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi hana úr gildi á dögunum. Sigríður Matthildur hefur því rétt á að fara í aðgerðina, segir hún í samtali við RÚV.

Sigríður Matthildur, sem lengi hefur verið búsett í Reykjavík, er heyrnarlaus en fékk kuðungsígræðslu á vinstra eyra árið 2005. Síðan þá hefur beiðni hennar fyrir samskonar aðgerð á hægra eyra verið hafnað nokkrum sinnum. Rök Sjúkratrygginga hafa verið þau að ekki sé talin brýn nauðsyn fyrir aðgerðinni, þótt hún bæti vissulega lífsgæði, eins og það var orðað. Sigríður Matthildur segir niðurstöðuna nú vera afgerandi og  það sé skýrt að ekki teljist nóg að heyra bara með öðru eyranu. „Þetta er gríðarlegur sigur fyrir fólk sem er að berjast við þetta,“ segir hún við Fréttablaðið.

Hingað og ekki lengra

Það var eftir ótrúlega atburðarrás fyrir nokkrum mánuðum sem Sigríður Matthildur sagði hingað og ekki lengra; hún myndi ekki sætta sig við vinnubrögð Sjúkratrygginga og sendu kæru til áðurnefndrar úrskurðarnefndar.

Í desember var haft samband við hana eftir að einhver sem átti að fara í aðgerð forfallaðist. Aðgerðin var sú síðasta á fjárhagsárinu að því er segir í Fréttablaðinu og því búið að úthluta fjármagni og því líku fyrir aðgerðina.

Þar segir ennfremur: „Við héldum að þetta væri einungis formsatriði [að fá samþykki frá Sjúkratryggingum] en það kom bara aftur nei,“ segir Sigríður og bætir við að rök Sjúkratrygginga hafi verið að hún hafi farið áður og þyrfti ekki annað tæki.

Umfjöllun Fréttablaðsins

Umfjöllun RÚV