Fara í efni
Fréttir

Uppselt í fjallið frá 14 í dag til þriðjudags

Stopp! Því miður - uppselt á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Stopp! Því miður - uppselt á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Straumur fólks liggur norður í land og ljóst að fjöldi höfuðborgarbúa hyggst nota vetrarfrí grunnskóla í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum til þess að bregða sér á skíði í Hlíðarfjalli. Seint í gærkvöldi voru til miðar á skíðasvæðið milli klukkan 10 og 14 í dag, en síðan er uppselt á svæðið allt þar til á þriðjudagsmorgun. Þess ber þó að geta að eigendur vetrarkorta geta mætt í fjallið og rennt sér að vanda.

Opið verður í Hlíðarfjalli frá klukkan 10 til 19 alla daga til mánaðamóta en deginum skipt í tvennt eins og undanfarið; þeir sem vilja vera fyrr á ferðinni geta rennt sér frá klukkan 10 til 14 og aðrir frá 15 til 19. Lyftum verður lokað á milli klukkan 14 og 15, vegna sóttvarnarreglna, svo hóparnir þurfi ekki að vera í fjallinu samtímis.

Enn er mikið til af miðum í lyfturnar í næstu viku, reyndar orðið uppselt fyrri hluta föstudags 26. og laugardags 27. febrúar en nóg laust síðari hluta beggja daga, skv. miðasölukerfi Hlíðarfjalls seint í gærkvöldi.

Góð aðsókn hefur einnig verið á skíðasvæðin á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði undanfarið og reikna má að margir leggi einnig leið sína þangað í vetrarfríinu.

Rétt er að benda á eftirtalin atriði, varðandi skíðasvæðið í Hlíðarfjalli:

  • Leyfilegur hámarksfjöldi á svæðinu er 25% af reiknaðri móttökugetu svæðisins.
  • Ekki er í boði að nýta dagspassa eða Norðurlandskort þegar uppselt er í fjallið.
  • Ekki er hægt að kaupa vetrarkort á tímabilinu 17. til 28. febrúar nema fyrir börn fædd 2005 og seinna.
  • Miðasala fer einungis fram á heimasíðu skíðasvæðisins – smellið hér til að athuga hvort til séu miðar
  • Mikilvægt er að vera með vasakortin tilbúin áður en fólk hyggst bóka pláss á skíðasvæðinu á netinu. Ekki er hægt að nota sama kort til að skrá sig bæði fyrri- og seinnipart sama daginn.
  • Þar sem hvorki er hægt að kaupa miða fyrir öryrkja eða Hetjumiða á miðasölusíðu Hlíðarfjalls er í boði að kaupa þá í lúgu gegn framvísun örorkukorts/umönnunarkorts. Þó er bent á að ekki er hægt að hleypa ótakmörkuðum fjölda á svæðið. Fólk er því beðið að hringja í síma 462-2280 áður en lagt er af stað í fjallið, til að kanna stöðuna.
  • Virða skal tveggja metra regluna sem og grímuskyldu á öllu svæði Hlíðarfjalls.