Fara í efni
Fréttir

Upplýsinga leitað um stúlku sem varð fyrir bíl

Gangbrautin og strætóskýlið við Hjalteyrargötu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Lögreglan á Norðurlandi eystra leitar að upplýsingum um unga stúlku sem ekið var á við gangbraut á Hjalteyrargötu sl. föstudag, 25. júlí.

Atvikið átti sér stað rétt fyrir kl. 15 þegar ung stúlka, klædd í svartar buxur og bleika peysu, hljóp í veg fyrir húsbíl sem ekið var í norðurátt. Að því er segir á Facebook-síðu lögreglunnar lenti stúlkan á bifreiðinni og féll í götuna. Hún hljóp síðan burt í áttina að strætóskýli og virðist hafa verið í hóp með öðrum krökkum á aldursbilinu 7-12 ára. Vitni að atvikinu ræddi við stúlkuna en hún vildi ekki þiggja neina aðstoð eða gefa upp nafn.

Lögreglan leitar nú eftir upplýsingum um þessa ungu stúlku en líklegt þykir að hún hafi hlotið einhverja áverka við slysið.

Þau sem geta gefið upplýsingar um málið eru beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444 2800 eða senda póst á netfangið nordurland.eystra@logreglan.is.