Fara í efni
Fréttir

Upp er runninn dagur hinna bestu spora!

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, æfir sig á nýja troðaranum í Kjarnaskógi í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Gönguskíðafólk hefur lengi beðið spennt eftir nýjum snjótroðara Skógræktarfélags Eyfirðinga sem safnað var fyrir með glæsibrag á síðasta ári. Hann kom á sínar nýju heimaslóðir í vikunni, eins og Akureyri.net greindi frá, og nú er runninn upp dagur hinna bestu mögulegu spora!

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins, prufukeyrði troðarann í gær og var himinlifandi; sagði tækið í einu orði sagt frábært, en hann væri að vísu enn að læra á alla takkana! Æfingin gekk þó ljómandi vel, sagði Ingólfur, og þegar fyrstu skíðamenn mæta í dag verður búið að leggja spor í Kjarnaskógi, á útivistarsvæði skátanna að Hömrum og í Naustaborgum. 

Aðstæður eru afar góðar til skíðagöngu í Hlíðarfjalli og frábærar frá náttúrunnar hendi í Kjarnaskógi og nágrenni. Í skóginum er jafnan logn þó vindar blási annars staðar og nú þegar mögulegt er að búa þar til eins góð gönguspor og kostur er, er ástæða til þess að óska Akureyringum og nærsveitungum til hamingju.