Fara í efni
Fréttir

Ungbarnaleiksvæði með kanínuþema

„Það er nú stundum talað um kanínur sem plágu hér í skóginum en hér gerum við þær að vinum okkar og börnin elska þær,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Nýtt ungbarnaleiksvæði er nú í uppbyggingu í Kjarnaskógi. Tuttugu trékanínur munu prýða svæðið, þar af ein á stærð við sex ára barn.

„Það er nú stundum talað um kanínur sem plágu hér í skóginum en hér gerum við þær að vinum okkar og börnin elska þær,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga við Akureyri.net um kanínuþemað á nýja ungbarnaleiksvæðini sem er í uppbyggingu á Kjarnavelli (leiksvæðinu við aparóluna). Kanínurnar tuttugu eru listilega sagaðar út með keðjusög úr efnivið úr skóginum af tékkneskum starfsmanni Skógarmanna, Mates Cieslar. „Pabbi hans var keppnismaður í þessu fagi í Tékklandi en hann hafði sjálfur ekkert fengist við þetta. Við mönuðum hann upp í að æfa sig og þá kunni hann alveg handtökin,“ segir Ingólfur ánægður með útkomuna.

Það er alltaf eitthvað að frétta úr Kjarnaskógi. Auk hefðbundinna verka á borð við viðhald, grisjun og klósettþrif eru ýmsar nýjungar væntanlegar í skóginn þetta sumar. Tuttugu trékanínur í ýmsum stærðum og gerðum eru t.d. væntanlegar á nýtt ungbarnaleiksvæði.

Leiksvæði með pláss fyrir drullumall

Ingólfur segir að með nýja leiksvæðinu sé verið að koma til móts við allra yngsta aldurshópinn og reiknar hann fastlega með því að svæðið verði afar vinsælt hjá barnafólki, bæði sumar sem vetur. „Hér erum við að setja fókusinn á unga krakka, alveg niður í kornabörn, þannig að leiksvæðið verður sérhæft fyrir þann aldur. Hér mun t.d. koma upp skiptiaðastaða. Með tilkomu nýja snjótroðarans verður auðvelt að búa til gott aðgengi að svæðinu á veturna, þannig að það sé hægt að hafa þar einhverja viðveru yfir vetrartímann,“ segir Ingólfur sem er sjálfur orðinn afi og veit hversu gott það er að geta haft aðgang að leiksvæði allan ársins hring. „Svo er búið að byggja grillhús sem verður annar hluti af þessu svæði og eins höfum við gert ráð fyrir salernisaðstöðu sem kemur reyndar ekki í þessum áfanga.“

Frá Kjarnavelli. Þar er risinn grillskáli.

Á nýja ungbarnaleiksvæðinu á Kjarnavelli er m.a. að finna lítið trampólín, sjóræningaskip og skemmtilegt sulltæki með vatni. „Já við ætlum að bjóða upp á smá drullumall þarna. Við vitum ekki alveg hvernig það þróast eða hversu glaðir foreldrarnir verða með það,“ segir Ingólfur. Leiktækin eru nú þegar komin upp en enn er verið að vinna í frágangi á svæðinu. Ingólfur segir að stefnt sé að því að hafa svæðið hreint og fínt á 17. júní en formleg opnun á svæðinu verður þó ekki fyrr en um verslunarmannahelgina.

„Þá erum við að hefja vinnu við að forma sleðabrekku sem verður rétt hjá áðurnefndu leiksvæði og stefnum við að því að hafa hana sem mest opna yfir vetrartímann,“ segir Ingólfur sem lumar á fleiri tíðindum úr Kjarnaskógi. Líkamsræktaraðstaðan Kjarnaclass, sem opnaði í fyrrasumar, fær tvö ný tæki og þá stendur til að bæta útiaðstöðuna við Kjarnakot sem gerir hittinga fyrir stærri hópa þægilegri.

Þótt kanínur hafi oft valdið skemmdum á græðlingum í Kjarnaskógi þá eru þær falleg dýr sem veita notendum skógarins gleði. Ungbarnaleiksvæðið við Kjarnavöll verður með kanínuþema sem minnir gesti á tilvist þeirra.