Fara í efni
Fréttir

Úkraínsk súpa og spjall á Glerártorgi

Á Glerártorgi á föstudaginn, frá vinstri: Natalia frá Úkraínu, Adrià (Spáni), Tetiana (Úkraínu), Andrii (Úkraínu), Iryna (Úkraínu), Simona (Sviss) og Joanna (Póllandi).

Úkraínumaðurinn Andrii Gladii, sem skipulagði samstöðufund á Ráðhústorgi í febrúar vegna stríðsins í heimalandi hans, var á Glerártorgi á föstudaginn ásamt fleirum, seldi úkraínska súpu – Borscht – og ræddi við fólk.

„Andrúmsloftið var mjög jákvætt, ekki síður en daginn áður þegar við vorum að elda súpuna. Þá lögðu margir hönd á plóg; við að elda, útvega húsnæði og hráefni, fólk frá Póllandi, Spáni og Sviss auk Íslendinga,“ segir Andrii við Akureyri.net.

Borscht er hefðbundinn úkraínskur réttur sem jafnan er borinn fram fyrstur þegar fjölskylda snæðir saman kvöldverð. „Þetta er súpa með kartöflum, káli, gulrótum, lauk, hvítlauk og kryddi, stundum er kjöt í súpunni en allur gangur er á því; mér finnist hún til dæmis betri án kjöts.“ 

Þau Andrii seldu um 100 skammta, um helming af því sem eldað var. „Tilgangurinn með því að vera á Glerártorgi var ekki bara að selja súpu heldur að  tala við fólk og margir voru mjög áhugasamir. Margir spurðu um Úkraínu, ástandið í landinu og hvað ég væri að gera á Íslandi. Við vildum safna peningum sem við getum sent út til mannúðaraðstoðar vegna stríðsins en samkoman var líka góð leið til ræða málin og tengja fólk saman,“ segir Andrii.

„Ég er mjög þakklátur þeim sem hjálpuðu okkur og þeim sem komu og keyptu súpu eða til að spjalla við okkur á Glerártorgi. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að við skynjum mjög vel hve Íslendingar hugsa hlýlega til Úkraínumanna og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli,“ sagði Andrii Gladii.