Fara í efni
Fréttir

Tveir leikskólar á Brekkunni sameinaðir

Líf og fjör á skólalóð Lundarsels. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Leikskólarnir Lundarsel og Pálmholt hafa verið sameinaðir og tóku þannig til starfa eftir sumarfrí. Jafnframt hefur efra húsið sem tilheyrði Pálmholti verið tekið úr notkun enda húsnæðið barn síns tíma. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Leikskólinn verður starfræktur í tveimur húsum, við Þingvallastræti og Hlíðarlund, sem hafa hingað til hýst Pálmholt og Lundarsel. Fjöldi barna í sameinuðum leikskóla er 146.

Engar breytingar á deildaskipulagi

Til að byrja með, fyrsta skólaárið hið minnsta, verða ekki gerðar breytingar á deildaskipulagi skólans og því verða áfram yngri og eldri leikskólabörn í báðum húsum. Í húsnæðinu við Hlíðarlund eru börn frá 18 mánaða aldri til sex ára og í húsnæðinu við Þingvallastræti eru börn frá 12 mánaða til sex ára.

Skólastjórnendur Lundarsels stýra sameinuðum leikskóla, þær Björg Sigurvinsdóttir skólastjóri og Helga María Þórarinsdóttir aðstoðarskólastjóri.

Drífa Þórarinsdóttir fráfarandi skólastjóri Pálmholts stýrir Klöppum, nýjum leikskóla við Glerárskóla, og flestir starfsmenn sem hafa verið á Pálmholti hefja sömuleiðis störf á Klöppum nú í haust. Samhliða eiga sér stað nokkrar tilfærslur starfsfólks milli húsa í sameinuðum leikskóla auk þess sem nýtt fólk er ráðið inn. Fyrstu vikur nýs skólaárs mun fráfarandi starfsfólk Pálmholts og nýtt starfsfólk vinna saman til að tryggja góða aðlögun barna, starfsmanna og foreldra.

Undirbúningur gengið vel

Björg skólastjóri segir að undirbúningur sameiningar hafi gengið vel. „Mikið samstarf hefur verið á milli skólastjórnenda Lundarsels og Pálmholts og hefur verið lögð rík áhersla á gott upplýsingaflæði til foreldra. Ráðningar í sameinað Lundarsel hafa gengið mjög vel en þessa dagana erum við að ganga frá ráðningum í afleysingastöður,“ segir Björg.

Fjöldi starfsmanna í báðum húsum verður um 40 manns. Þar af er 21 með leyfisbréf leikskólakennara og sex með aðra háskólamenntun. Sex karlmenn vinna í leikskólanum og eru fjórir þeirra með leyfisbréf leikskólakennara. „Starfsfólk sameinaðs leikskóla er mjög spennt að takast á við þetta áhugaverða og krefjandi verkefni. Þeir leggjast á eitt að sameining takist sem best fyrir börn, foreldra og starfsmenn,“ segir Björg.

Enn á eftir að ákveða hvað sameinaður leikskóli á að heita. Auglýst var eftir nafni meðal foreldra og nemenda og bárust nokkrar tillögur. Starfsmannahópurinn valdi þrjár þeirra sem á eftir að kjósa um.