Fara í efni
Fréttir

Túristagötuvitinn þarf að fara annað

Beðið eftir, ekki á, rauðu ljósi. Þetta er býsna algeng sjón við götuljós bæjarins. Þessi mynd er tekin á gatnamótum Glerárgötu og Strandgötu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Skýringin á ljósleysi túristagötuvitans milli Hofs og Torfunefsbryggju er komin. Þegar framkvæmdir hófust við Torfunefsbryggjuna þurfti að aftengja rafmagnið sem liggur í staurinn. Á það var bent í athugasemdum við fyrri frétt á Facebook-síðu Akureyri.net og þetta staðfestir einnig Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður atvinnu- og menningarmála hjá Akureyrarbæ. Hann upplýsir einnig að skoðað hafi verið að tengja hann eftir öðrum leiðum, en nú liggi hins vegar fyrir að samkvæmt deiliskipulagi þurfi götuvitinn að víkja og finna þurfi nýjan stað þar sem hægt verður að mynda hjartað í rauða ljósinu.

Götuvitanum verður væntanlega fundinn annar staður á miðbæjarsvæðinu. Einn staður sem kæmi hugsanlega til greina er á horni Kaupvangsstrætis og Skipagötu, þar sem er lítið torg sem er býsna fjölfarið.

Hjartað tekur kipp út af deiliskipulagi og þarf að fara annað. Hjartað er þarna enn þó ljósið vanti. Mynd: Haraldur Ingólfsson.