Fara í efni
Fréttir

Tölvan segir nei! – „Ótrúleg ósanngirni“

Sigfús Ólafur Helgason Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigfús Ólafur Helgason á Akureyri kveðst hafa fengið úr því skorið að ekki teljist lífsógnandi að geta ekki borðað. Síðan árið 2018 hefur hann þurft í 31 megaspeglun í því skyni að útvíkka vélinda til þessi að hann geti nærst.

Umrædd aðgerð er ekki stór, að sögn Sigfúsar, en er þó einungis hægt að gera í Reykjavík þar sem magaspeglunartæki Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) er gamalt og ekki nothæft til aðgerðar eins og þeirrar sem hann vísar til. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) samþykki þrátt fyrir það aðeins að greiða tvær ferðir á ári fyrir Sigfús til borgarinnar – vegna þess að ekki sé um lífsógnandi sjúkdóm að ræða. Ferðir Sigfúsar eru þó mun fleiri, illu heilli.

„Já, þetta er ótrúlegt, en satt. Sjúkratryggingar greiða bara tvær ferðir á ári þar sem það er ekki talið lífsógnandi að geta ekki borðað,“ segir Sigfús og hlær, þótt honum sé langt frá því hlátur í huga.

Landsbyggðarmál

„Svörin frá Sjúkratryggingum eru einföld; reglugerðin er því miður svona!“ segir Sigfús við Akureyri.net. Þetta minnir hann á setninguna frægu um að tölvan svari neitandi, Computer says no, í bresku grínþáttunum, Little Britain.

Sigfús er afar ósáttur við gang mála. „Ég er ekki fyrst og fremst að hugsa um sjálfan mig heldur er þetta stórt landsbyggðarmál; reglugerðin segir mér skýrt og greinilega að við búum ekki við sömu aðstæður og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ótrúleg ósanngirni. Sá sem býr í Hlíðunum í Reykjavík getur gengið á Landspítalann fyrir þessa litlu aðgerð og svo heim aftur að henni lokinni en ég þarf að fara til Reykjavíkur daginn áður. Og þetta er enn meira mál fyrir fólk sem býr lengra frá flugvelli en ég.“

Í öðru lagi segist Sigfús ósáttur við fjársvelti til tækjakaupa fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. „Stofnunin þjónar stóru svæði og er varasjúkrahús fyrir Landspítalann. Magaspeglunartækið hér er gamalt og býður ekki upp á þennan víkkunarmöguleika eins og þau nýrri. Slík tæki eru hins vegar til á einkastofum í Reykjavík; ég hef farið þangað þegar Landspítalinn gat ekki sinnt mér.“

31 aðgerð síðan 2018

Það var árið 2017 sem Sigfús fór að finna fyrir óþægindum. „Við magaspeglun síðar á því ári kom í ljós að gat hafði komið á þindina og maginn var kominn í gegnum gatið!“ segir Sigfús. „Ég fór í aðgerð í byrjun árs 2018 en eitthvað gerðist í þeirri aðgerð sem varð til þess að snúningur kom á vélindað, sem var reyndar ekki vitað þá, en hefur valdið öllum þessum vandræðum. Síðan hef ég farið í 31 aðgerð til þess að útvíkka vélindað, þannig að matur eigi greiðari aðgang sína leið. Þegar ég er sem verstur æli ég öllu sem ég set ofan í mig; held engu niðri.“

Sigfús segist yfirleitt góður í um það bil tvo mánuði en þá fari að síga á ógæfuhliðina. „Þá fer ég að finna fyrir þrengslum og það endar oft í aðgerð. Ég segi ekki að það líði ekki sá dagur að að ég kasti ekki upp, en aldrei vika.“

Suður bara í útvíkkun?!

Þegar Sigfús sendir Sjúkratryggingum skýrslu vegna ferðakostnaðar skal vottorð læknis fylgja með „og í því stendur að vegna aðstæðna þurfi ég að fara suður í þessa aðgerð. Það breytir engu. Það er ekki eins og ég kjósi að fara suður; ef nauðsynlegt tæki væri til á Sjúkrahúsinu á Akureyri væri ég bara hjá þessum frábæru læknum hér. Ég hef fullan stuðning lækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri í þessu máli, og lækna á Landspítalanum. Starfsmaður þar spurði mig eitt sinn: ertu að koma suður bara til þess að fara í útvíkkun?“

Sigfúsi segir mögulegt að senda andmæli til SÍ í tilfellum eins og hans, en til þess þurfti liðsinni lögfræðinga og fólk eigi ekki að þurfa að standa í slíku. „Ég hef í sjálfu sér ekkert nema gott um heilbrigðiskerfið að segja en regluverkið er ekki eins og það ætti að vera. Allir sem að þessu koma, meðal annars læknar, eru sammála um að það sé galið að ekki sé hægt að gera þessa aðgerð hér á Akureyri.“

Ráðherra hafnaði fundi

Sigfúst hefur farið fram á fund með heilbrigðisráðherra en þeirri beiðni var hafnað.

„Við skrifuðum saman bréf til ráðherra, Guðjón Kristjánsson yfirlæknir meltingafæradeildar SAk og ég, og óskuðum eftir fundi en af honum hefur ekki orðið. Ég fékk þau svör frá aðstoðarmanni ráðherra að ekki væri venjan að hann tæki sjúklinga í viðtöl. Ég ætlaði reyndar ekki að  tala um mig við ráðherrann eða fá hann til þess að lækna mig, heldur vekja athygli hans á þessari miklu ósanngirni sem landsbyggðarfólk býr við,“ segir Sigfús.

Sigfús segist hafa rætt málið við tvo þingmenn Norðausturkjördæmis og vonandi komist skriður á það innan tíðar. Sjálfur fer hann í enn eina aðgerðina í næsta mánuði, þar sem þess verður freistað að koma vélindanu í lag þannig að þrautagöngu hans ljúki loks.