Fara í efni
Fréttir

Töluvert snjóaði á Akureyri í nótt

Töluverður snjór var á Akureyri í morgun eins og sjá má. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Töluvert snjóaði í Eyjafirði í nótt, snjókomu er spáð áfram í dag og vindi víða 10 til 18 metrum á sekúndu. Álíka hvasst verður á morgun, þá er spáð éljum og einnig á fimmtudag, 30. desember. Frost er ekki nema tvær til þrjár gráður og lausamjöllin ekki til teljandi vandræða. Nokkrir lentu þó í erfiðleikum í búðagötum á Akureyri í morgun, festu bílinn og skildu eftir en héldu áfram gangandi til vinnu. Lögreglan segist þó ekki hafa þurft að sinna neinu alvarlegu. Verið er að moka fjölförnustu götur. 

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands birti eftirfarandi hugleiðingu í bítið:

„Í dag er spáð norðan- og norðaustanátt og verður strekkingur eða allhvass algengur vindstyrkur. Á norðan- og austanverðu landinu er útlit fyrir snjókomu og gæti orðið nokkuð drjúg ofankoma á köflum. Vegfarendur eru hvattir til að kynna sér færð og ástand vega, sérílagi ef förinni er heitið yfir fjallvegi. Sunnan og suðvestanlands mun eitthvað snjóa einnig, þó í mun minna mæli en fyrir norðan og austan. Það dregur úr frosti og verður það yfirleitt á bilinu 0 til 4 stig þegar kemur fram á daginn.

Á morgun er áfram útlit fyrir stífa norðan- og norðaustanátt. Það verður úrkomuminna norðan og austanlands en verður í dag, þó má búast við éljum á þessum slóðum. Sunnan heiða er útlit fyrir léttskýjaðan dag. Veður fer smám saman kólnandi á morgun.“

Óvissustigi hefur verið lýst yfir í dag á Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarvegi vegna snjóflóðahættu. Vegagerðin segir þæfingsfærð á Svalbarðsströnd og til Grenvíkur en unnið sé að mokstri. 

Borgarbraut í morgun.