Fara í efni
Fréttir

Töluverðar skemmdir á yfirbyggingu Töfrateppisins

Yfirbyggingin á töfrateppinu. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Glæný yfirbygging Töfrateppisins í Hlíðarfjalli skemmdist töluvert í vindhviðum fyrir rúmri viku, aðfararnótt þriðjudagsins 21. nóvember. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar. Töfrateppið er ein af vinsælustu skíðabrautunum í Hlíðarfjalli og kostar ekkert að nota færibandið enda er það mikið notað af þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðunum, ungum sem eldri. Rétt rúmur mánuður er síðan starfsmenn skíðasvæðisins luku við að setja saman þessa 63ja metra löngu yfirbyggingu úr gegnsæjum einingum.

Framleiðandinn hafði gefið út að yfirbyggingin stæði af sér vind sem er vel yfir mörkum þess sem kallast fárviðri, vind upp á 46 metra á sekúndu og hviður upp á 51 m/s. Fárviðri er 32,7 m/s. Fram kemur í fréttinni að umrædda nótt hafi vindur mest náð 39 m/s og staðið yfir í rúmar fjórar klukkustundir. 

Sunkid, framleiðandi töfrateppisins, bætir tjónið að fullu og mun því enginn kostnaður falla á Akureyrarbæ vegna skemmdanna. Tæknimaður frá Sunkid hafði vottað að uppsetning yfirbyggingarinnar hafi verið rétt og ætti að þola fárviðri. Íslenska rokið vakti því undrun framleiðendanna. 

Nú hefur yfirbyggingin verið styrkt með þverbitum á milli allra boganna í yfirbyggingunni til að koma í veg fyrir að glerið geti svignað og gefið sig í fárviðri, en þessi lausn hefur verið notuð þar sem mikil snjósöfnun verður ofan á slíkar yfirbyggingar og hefur gefið góða raun. 

Stefnt er að því að opna Töfrateppið fyrir skíðaiðkendum fljótlega eftir að skíðasvæðið verður opnað upp úr miðjum desember.