Fara í efni
Fréttir

Tökum þátt í prófkjörinu í Norðausturkjördæmi

Í dag laugardaginn 29. maí, verður haldið prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna Alþingiskosninga 25. september nk. Ég gef kost á mér í 1. sæti á lista flokksins og bið um stuðning í leiðtogasætið.

Ég hóf störf á Alþingi fyrir kjördæmið árið 2016 og hef staðið fyrir gildi og frelsissýn sjálfstæðisstefnunnar. Þar hef ég talað fyrir athafnafrelsi og einkarekstri, gegn oftrú ríkisrekstrar og sífellt öflugra miðstjórnarvaldi, eftirliti og auknum sköttum. Trú mín er að athafnafrelsi og velferð haldist í hönd og hver megi uppskera í samræmi við eigið framlag. Hef látið til mín taka á vettvangi atvinnu- og samgöngubóta, en ekki síst í málum er varða byggðamál, byggðafestu, hugmyndaauðgi og framkvæmdarhug. Lengstum hef ég setið í fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd þingsins og er nú varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins. Verið í virku sambandi við kjósendur Norðausturkjördæmis og víðar. Störf mín og áherslur eru aðgengileg á samfélagsmiðlum.

Fólk kýs en fyrirtækin ekki

Í prófkjörinu eigum við kost á vali milli öflugra frambjóðenda víða úr kjördæminu. Ég er stoltur að tilheyra þeim góða hópi. Hann vil ég leiða.

Vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga er ástæða til að minna á að sjálfstæðisfólk kýs í prófkjörinu en fyrirtæki ekki eða hagsmunasamtök. Þar leita ég beint og milliliðalaust til sjálfstæðisfólks eftir umboði til að leiða listann. Að baki framboði mínu standa hvorki sérhagsmunir né fyrirtæki. Það ætti að vera öllum ljóst þar sem ég er ekki af valdafjölskyldu eða með sterka hagsmuni að baki. Ég er engum háður og reiðubúinn til að starfa af heilindum og krafti fyrir fólkið í kjördæminu. Sonur einstæðrar móður sem ól upp fjögur börn sín af elju og dugnaði. Okkur var kennt að fara vel með þær bjargir sem í boði voru, sýna sanngirni, virðingu gagnvart sjálfum okkur og öðrum, og að hafa metnað og kjark til að sækja fram. Það var hollt veganesti út í lífið.

17 vikur

Á fundum og ferðum um kjördæmið síðustu mánuði hef ég fundið störf mín og hugmyndir eiga sterkan hljómgrunn í Norðausturkjördæmi. Þar hef ég minnt á prófkjörið sem upptakt farsællar kosningabaráttu, enda einungis 17 vikur til alþingiskosninga. Með öflugu prófkjöri stillum við upp lista sem laðar að sér ólíkt fólk með fjölbreyttan bakgrunn til samstarfs úr öllu kjördæminu. Slíkur framboðslisti og öflugt umboð úr prófkjöri gefa skýr fyrirheit um forystu í kjördæminu.

Fjölmenn og víðtæk þátttaka yrði sterkur meðbyr fyrir framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu í haust. Þann lista vil ég leiða og hvet alla til þátttöku.

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.