Fara í efni
Fréttir

Töfrateppið yfirbyggt

Nýja gegnsæja yfirbygging töfrateppisins. Mynd: Akureyri.is.

Starfsmenn skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli hafa lokið við að setja saman 63ja metra yfirbyggingu úr gegnsæjum einingum á hið svokallaða Töfrateppi. Yfirbyggingin myndar eins konar göng utan um færibandið og skýlir þeim sem það nota fyrir veðri og vindum. Frá þessu er sagt í frétt á vef Akureyrarbæjar.

Töfrateppið er ein af vinsælustu skíðabrautunum í Hlíðarfjalli og kostar ekkert að nota færibandið enda er það mikið notað af þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðunum, ungum sem eldri. Brekkan er einnig notuð af nemendum skíðaskólans.

Yfirbyggingin veitir skjól fyrir notendur og er um leið vörn fyrir lyftubúnaðinn. Í göngunum er LED-lýsing sem gefur þessari vinsælu lyftu skemmtilegt yfirbragð. Færibandsteppið sjálft var einnig endurnýjað og lyftan öll yfirfarin.