Fara í efni
Fréttir

Tímamót í málum fráveitu bæjarins

Dælustöðin er á fyllingu norðan við smábátahöfnina í Sandgerðisbót. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Norðurorka tók á dögunum í notkun nýja hreinsistöð fráveitu, sem byggð var norðan smábátahafnarinnar í Sandgerðisbót. Þetta eru mikil tímamót í fráveitumálum bæjarins því nú er vatnið hreinsað, öll föst efni síuð úr skólp­inu og því loks dælt 400 metra burt frá ströndinni, út í strauma, en áður var skólpinu einungis dælt 90 metra frá strönd­inni, óhreinsuðu.

Rekstur stöðvarinnar verður stærsti einstaki rekstrarliður fráveitukerfisins, en hann er talinn nema allt að 9% af tekjum fráveitunnar. Það er því ljóst að það er mikið átak fyrir samfélagið hér að ná að standast kröfur löggjafans um hreinsun.

Á heimasíðu Norðurorku kemur fram að verkfræðistofan Vatnaskil útbjó árið 1997 straumfræðilíkan af innri hluta Eyjafjarðar. Straumfræðilíkanið myndaði grunn til hönnunar og legu útrásarpípunnar á þann veg að útrásarvatnið, skólpið, nær út í sjávarstrauma og berst þannig út fjörðinn en á ekki að berast inn með ströndinni. Þannig muna draga verulega úr magni saurkólígerla í fjörunum við Akureyri. Þess má geta að Norðurorka tekur gerlamælingar fjórum sinnum á ári á 12 stöðum meðfram ströndinni frá Krossanesi inn að Leirubrú auk þess tekur Heilbrigðiseftirlitið sýni reglulega.